Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þyrluflug ráðherra skerti ekki viðbragðsgetu

Mynd með færslu
 Mynd: Landhelgisgæslan - Lanhelgisgæslan
Ferð ráðherra með þyrlu Landhelgisgæslunnar frá Suðurlandi til Reykjavíkur og aftur til baka í síðustu viku krafðist ekki aukakostnaðar né aukinnar fyrirhafnar Gæslunnar. Viðbragðsgetan var ekki skert þar sem þyrlan var fullmönnuð til útkalls. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra úr hestaferð að morgni fimmtudags og flaug henni til Reykjavíkur. Þar var hún viðstödd samráðsfund heilbrigðisráðherra sem haldinn var á Hotel Hilton Nordica.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að deginum áður, miðvikudaginn 19. ágúst, hafi Landhelgisgæslan fengið upplýsingar frá jarðvísindamönnum um að kanna þyrfti hvort hlaup hefði orðið í Svartá við Langjökul. Ákveðið var að fara þá ferð daginn eftir, fimmtudaginn 20. ágúst. 

Forstjóri Landhelgisgæslunnar, Georg Kr. Lárusson, og Áslaug Arna ræddust við í síma vegna fyrirhugaðra könnunarfluga og bar málið þá á góma. „Bauð forstjórinn dómsmálaráðherra ferð með þyrlunni enda lá fyrir að áhöfnin þyrfti að sinna umræddu verkefni,“ segir í tilkynningunni. 

Þar segir jafnframt að öll flug sem þessi séu innan flugtímaáætlunar Landhelgisgæslunnar og sem reiknast sem sá lágmarkstími sem þarf til að halda áhöfnum í þjálfun og tryggja réttindi þeirra til björgunarflugs. „Ekki er því um aukakostnað né aukna fyrirhöfn eða skerta viðbragðsgetu þar sem þyrlan var fullmönnuð til útkalls,“ segir í tilkynningu Landhelgisgæslunnar.