Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þúsundir Svía ranglega greindir með COVID

25.08.2020 - 17:34
epa08338984 A medical doctor performs af mouth swab on a patient to be tested for novel coronavirus disease (COVID-19) in a new tent extension of the Danish National Hospital Rigshospitalet in Copenhagen, Denmark, 02 April 2020.  EPA-EFE/NIELS CHRISTIAN VILMANN  DENMARK OUT
 Mynd: EPA-EFE - Ritzau-Scanpix
Hátt í fjögur þúsund Svíar hafa verið ranglega greindir með COVID-19 kórónuveiruna vegna skimunarbúnaðar sem ekki stóðst kröfur.

Sænska ríkisútvarpið SVT greinir frá þessu og segir sænsk heilbrigðisyfirvöld hafa tilkynnt um málið í dag. Þúsundir Svía hafa undanfarna mánuði fengið tilkynningu um að þeir hefðu greinst jákvæðir fyrir kórónuveirunni þó að þeir væru í raun ekki sýktir.

Ástæðu þessa má rekja til skimunarbúnaðar sem keyptur var frá Kína og ekki stóðst kröfur. Það uppgötvaðist hins vegar ekki fyrr en sýnin voru rannsökuð ítarlega á rannsóknarstofu.

„Villan í CE-merkingu uppgötvaðist við gæðaprófanir. Lyfjastofnun hefur nú verið greint frá þessu,“ hefur SVT eftir Karin Tegemark Wisell hjá embætti sænska landlæknisins.

Búnaðurinn sem um ræðir var í notkun við skimanir á tímabilinu frá miðjum mars og fram í miðjan apríl og er nú unnið að því að hafa uppi á þeim sem voru ranglega greindir. Segir SVT talið að um 3.700 mann muni nú í vikunni fá tilkynningu um að þeir hafi ekki fengið veiruna.