Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þrisvar sinnum stærra átak en í hruninu

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Þeir sem að hafa verið lengi atvinnulausir geta sótt um nám á næsta ári í framhaldsskólum eða háskólum án þess að atvinnuleysisbætur skerðist. Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, bindur vonir við að frumvarp verði að lögum á þingi sem hefst á fimmtudaginn. Miðað er við að í boði verði 2000 skólapláss í framhaldsskólum og 1000 í háskólum.

Ráðherra segir að málið snúist um að þeir sem hafi verið atvinnulausir í 6 mánuði eða lengur geti sótt um nám í eina önn. Eftir það taki Menntasjóður námsmanna við. 

„Þetta byggist í raun á því að við erum búin að taka frá fjármagn til þess að geta keypt af skólunum 3000 námspláss í fyrstu lotu og það er þrisvar sinnum stærra átak heldur en farið var í hér eftir efnahagshrunið 2009. Hugsunin er sú að í samráði við ráðgjafa hjá Vinnumálastofnun verði keypt nám í viðkomandi menntastofnun,“ segir Ásmundur Einar Daðason. Hann segir að lagabreytingar um þetta verði lagðar fram á Alþingi sem kemur saman á fimmtudaginn og verði hluti af fleiri lagabreytingum sem tengjast COVID-19.

Miðað er við að hægt verði að sækja um skólavist á vor- og haustönn á næsta ári og vorönn 2022. Gert er ráð fyrir að einnig verði boðið upp á önnur námsúrræði. Áætlað er að verja röskum 6 milljörðum í þessar aðgerðir.

Rætt er við Ásmund Einar í Speglinum.
 

 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV