„Þessi atburður setti fjölskylduna á hliðina“

Mynd: Þorsteinn J / Facebook

„Þessi atburður setti fjölskylduna á hliðina“

25.08.2020 - 12:42

Höfundar

Fjölmiðlamaðurinn og rithöfundurinn Þorsteinn J. skrifaði um skelfilegt fráfall móðurbróður síns, sem varð fyrir bíl fyrir utan heimili sitt, í bókinni Takk, mamma og kom út árið 2000. Þar fór hann í saumana á sambandinu við móður sína, áhrifum slyssins og þögguninni í kringum það. Nú er hann að senda frá sér nýja bók, Ég skal vera ljósið, sem gerist í Slippnum en fjallar um hvernig hægt er að endurskapa söguna.

Sjónvarps- og fjölmiðlamaðurinn Þorsteinn J. Vilhjálmsson fann snemma fyrir ástríðu sinni fyrir dagskrárgerð og miðlun. Hann fékk í jólagjöf sem barn lítið upptökutæki sem hann notaði til að taka sjálfan sig upp og stundum einnig viðtöl við systur sína. Seinna eignaðist hann kasettutæki sem hann þvældist með um allt og tók alls konar hljóð og pælingar upp á segulbandsspólur sem hann geymir enn. „Ekki því þetta sé svo merkilegt heldur vegna þess að þetta er heimild. Maður ýtir á play og er kominn í huganum til Los Angeles 96 eða til Torfa á Hala sautjánhundruð og súrkál. Þetta er svo aðlaðandi finnst mér,“ segir hann. Þorsteinn hefur líka látið til sín taka á ritvellinum og vakti bók hans, Takk mamma, sem kom út árið 2000 mikla athygli. Bókina byggir hann á eigin reynslu og fjölskyldusögu. Frásögnin er persónuleg og fjallar um samband Þorsteins við móður sína sem lést úr krabbameini 67 ára. „Það vita það náttúrlega allir sem missa foreldra sína að það er akkúrat tíminn sem þú færist úr stað frá því að vera barn í að vera fullorðinn,“ segir hann í samtali við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttir í þættinum Segðu mér á Rás 1. „Sá tími kallar á þörf til að skilgreina, horfa til baka og sjá hvað var í gangi. Hvað gerðist og af hverju það hafði áhrif.“

Stormasamt mæðginasamband og skelfilegt leyndarmál

Hvatinn að bókinni var þörf Þorsteins til að skilja fortíðina og setja atburði hennar í samhengi. Samband mæðginanna var á köflum stormasamt og erfitt og segist Þorsteinn hafa rammað það inn í bókinni. „Þetta er veganesti sem ég fékk frá henni og þessi reynsla er efniviður sem ég er enn að nota. Ég er þakklátur fyrir það,“ segir Þorsteinn og vitnar í ljóðlínu Megasar: „Það bíður jú allra að staldra við eftir sjálfum sér.“ Móðir Þorsteins glímdi við þunglyndi og alkóhólisma og segir Þorsteinn að hún hafi alla ævi burðast með mikla sorg sem hún vann aldrei í.

Skelfilegur atburður sem henti þegar móðir hans var barn hafi haft áhrif á alla fjölskylduna, Þorstein sjálfan, systur hans og alla sem voru í kringum þau. Þegar móðurbróðir Þorsteins, Jens, var aðeins fimm ára gamall varð hann fyrir bíl beint fyrir utan heimili sitt. „Þessi atburður setur fjölskylduna á hliðina. Hann deyr í þessu slysi, fimm ára, þessi ungi drengur og þá fer allt úr skorðum,“ segir Þorsteinn. Atburðurinn litaði líf fjölskyldunnar og næstu kynslóð á eftir. „Þetta var sonur ömmu og bróðir mömmu. Þetta var rosalegt og ég get ekki sett mig í þau spor að missa barn.“

„Já, hann dó. Næsta spurning.“

Það var ljósmynd af drengnum á hillu uppi á vegg sem vakti forvitni Þorsteins en amma og móðir hans töluðu aldrei um drenginn á myndinni. „Maður horfði á þennan fallega dreng og ef maður reyndi að spyrja út í þetta var bara sagt: Já, hann dó. Næsta spurning,“ rifjar Þorsteinn upp. „Það var aldrei talað um neitt.“ En þó að bælingin sé ekki áhrifaríkasta leiðin til að vinna í áfalli segist Þorsteinn virða ákvörðun mæðgnanna um að byrgja sorgina inni. „Með því að draga tjöldin frá og skoða þessa hluti og hvaða áhrif þeir höfðu er ég ekki að dæma móður mína, afa og ömmu eða bræður mömmu. Alls ekki. Ég er að reyna að sjá hvaða áhrif þetta hafði,“ segir Þorsteinn. 

Langaði að komast að því hver pabbi hans væri

Áhuginn á fjölskyldusögunni og upprunanum vaknaði snemma hjá Þorsteini sem ólst upp hjá einstæðri móður sinni og var oft að velta því fyrir sér hvar þessi pabbi, sem hann las um í bókum og önnur börn státuðu af, væri. Hann spurði sig spurninga á borð við: „Hver er þessi maður? Hvaðan kemur hann og af hverju kemur hann ekki?“

Fjölskyldan bjó í kjallaraíbúð og útsýni yfir heiminn úti var mjög takmarkað. Sú staðreynd kynti undir þörf hans fyrir að komast að því hvað og hver væri þarna úti. „Það hlýtur að vera eitthvað í boði handan við skotgröfina,“ hugsaði hann. „Minn áhugi hefur verið fyrir því að skoða heiminn, spjalla við fólk og spyrja spurninga,“ segir hann. Og einhverjum spurningum um upprunann og faðernið var svarað síðar á lífsleiðinni því Þorsteinn hitti föður sinn nokkrum sinnum en hann er í góðu sambandi við hálfsystkini sín. „Ég hitti hann þegar hann var orðinn gamall og sagði að það væri gaman að kynnast honum meira og betur. Þannig skildum við,“ segir Þorsteinn. Síðan hefur hann rætt við fjölda fólks sem hefur ólíkar sögur af segja af föður hans. „Við dæmum enga jafn hart og foreldra okkar. Það er fólkið sem við erum alltaf verst við í huganum og finnst alltaf að við gætum gert hlutina betur,“ segir Þorsteinn. „En þetta er bara venjulegt fólk að gera sitt besta.“

Það er alltaf leið út úr aðstæðum

Þorsteinn er núna að senda frá sér margmiðlunaverk sem er í senn bók, hljóðbók og rafbók og nefnist Ég skal vera ljósið. Sögusviðið er slippurinn og sagan fjallar um heim hans en sagan hefur líka dýpri, sálfræði- og heimspekilega merkingu. „Þetta er bók og hljóðbókarútgáfa þar sem ég les og hljóðskreyti,“ segir hann. Hljóðheimurinn er skreyttur með tónlist Péturs Gretarssonar tónskálds. „Það eru mörg ár síðan ég fór að skoða Slippinn og hugmyndir um Slippinn því þetta er eini staðurinn í Reykjavík þar sem þú sérð eitthvað gerast. Skip koma inn, þau eru löguð og fara út, nýmáluð og strokin. Það tók langan tíma að komast að því hvað er hægt að gera við þennan efnivið.“ Í heimildaöflun og leit að innblæstri fer hann reglulega niður að Slipp og tekur myndir og hljóðupptökur og er farinn að þekkja mennina sem þar starfa. „Þetta er hjarta Reykjavíkur,“ segir Þorsteinn.

Viðbrögðin og úrvinnslan endurskapa söguna

Titill bókarinnar byggist á hugmyndinni sem kynnt er í bókinni um að það sé alltaf leið út úr aðstæðum. Hún fjallar ekki bara um slippinn heldur tengir Þorsteinn efnivið sögunnar við sínar hugmyndir um söguna sem hann er sannfærður um að sé hægt að endurskrifa með því að skoða hana á nýjan hátt. „Það er hæglega hægt að endurkskrifa söguna og það er hvatningin sem mér finnst vera til staðar.“ Hann tekur móður sína og hennar reynslu sem dæmi. „Það eru margar ólíkar sögur til af henni. Margir lýsa henni sem konu sem ég tengi ekkert við en er alveg jafn sönn lýsing á henni og mín. Þess vegna eigum við að vera óhrædd við að móta eigin sögu,“ segir Þorsteinn.

Hann segir að leiðir til að endurskrifa sjálfan sig og sögu sína séu oft kynntar og notaðar í sálfræðimeðferð með góðum árangri. „Raunveruleikinn er mjög afstæður. Það er eitthvað sem gerðist á ákveðnum stað sem hafði afleiðingar, fólk varð sorgmætt eða reitt eða glatt eða hvað sem er. En hvað maður gerir með það, það er hreyfiafl sögunnar sem maður getur endurskapað og endurmótað.“ Í því samhengi segir hann sérstaklega mikilvægt að sitja ekki í áfallinu árum og áratugum saman. „Frekar hugsa: Hvað get ég gert og hvað langar mig að gera,“ segir hann.

Dularfullt símanúmer aftast í bókinni

Verkið hefur verið í stöðugri mótun frá því í fyrrahaust. Bókinni var formlega lokið í júlí og væntanleg útgáfa er í október en á Facebook-síðu sinni hefur Þorsteinn deilt færslum með lifandi lýsingum frá Slippnum sem eru nokkurskonar upptaktur að bókinni og erfitt fyrir lesanda að átta sig á hver sögumaður er. Aftast í bókinni er svo dularfullt símanúmer og aðspurður gefur hann lítið upp um hverjum það tilheyrir. Verður svarað ef slegið er á þráðinn?  „Það svarar alltaf einhver,“ segir hann leyndardómsfullur að lokum.

Hægt er að hlýða á brot úr bókinni á Spotify. Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Þorstein J. í Segðu mér á Rás 1.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

„Þessi miðlunarlón eru barn síns tíma“

Tónlist

„Hún kláraði krabbameinsmeðferðina með barn á brjósti“

Menningarefni

Venjulegt barn uns einkennilegheitin gerðu vart við sig