Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ríkisstjórnin setið í þúsund daga

Þúsundasti starfsdagur ríkisstjórnarinnar var í dag. Forsætisráðherra segir kjaramálin eitt það mikilvægasta sem náðst hefur, en atvinnuleysið sé helsta verkefnið framundan. Sagnfræðiprófessor segir þessa ríkisstjórn ekki fara í sögubækurnar sem breytingastjórn, frekar sem stöðugleikastjórn.

Skrifað var undir stjórnarsáttmálann 30. nóvember 2017. Ríkisstjórnin er mynduð af Framsóknarflokki, Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum.

„Ég vil sérstaklega nefna heilbrigðiskerfið, menntakerfið og samgöngumálin. En stóra verkefnið er líka að viðhalda efnahagslegum stöðugleika samhliða þessari uppbyggingu og lykilatriði í því er auðvitað að skapa sátt á vinnumarkaði.“ sagði  Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra  þegar skrifað var undir stjórnarsáttmála þann 30. nóvember árið 2017.

Stöðugleikastjórn frekar en breytingastjórn

Guðmundur Hálfdánarson sagnfræðiprófessor segir að í kjölfar tíðra stjórnarskipta fyrir seinustu kosningar hafi verið ákall um stöðugleika í samfélaginu.

„Ég held að andinn í samfélaginu hafi verið þegar það var kosið seinast að vilja fá einhvern stöðugleika í samfélagið. Það höfðu setið tvær stjórnir frá árinu 2013-2017 og menn voru einfaldlega búnir að fá nóg og vildu fá svona meiri stöðugleika. Það náðist, og hefur náðst með þessari ríkisstjórn og það bendir allt til þess að forsvarsmenn þessara flokka sem standa að þessari ríkisstjórn vinni vel saman. Það er alltaf lykillinn að svona stöðugleika í stjórnarsamstarfi að forystumennirnir vinni vel saman.“ segir Guðmundur.

Hann segir stöðugleika og sátt fyrst og fremst einkenna þessa ríkisstjórn. Henni hafi tekist vel til með aðkomu sinni að samningahrinu á vinnumarkaði í vor. Aftur á móti hafi auðlindagjald og ný stjórnarskrá lítið verið í umræðunni sem komi honum á óvart. 

„Það verður að segjast hins vegar um leið að þegar þú setur saman ríkisstjórnir af svona flokkum sem koma úr svona ólíkum áttum, alveg frá hægri til vinstri þá er ekki líklegt að þær eigi auðvelt með að koma sér saman um stefnumarkandi breytingar af því að það einfaldlega er erfitt að finna sátt um slíkt. Þetta er ekki stjórn mikilla breytinga myndi ég segja, það er ekki mín tilfinning amk. Það er hennar aðall er þessi stöðugleiki.“ segir Guðmundur.

Sumt náð fram að ganga, annað ekki

Eins og við er að búast næst að afgreiða sum mál og önnur ekki. Meðal þess sem ríkisstjórnin hefur gert átak í eru náttúrufriðlýsingar, mikil uppbygging innviða, breytingar á námslánakerfinu, bygging nýs Landspítala er hafin, heilbrigðisstefna afgreidd og aukin áhersla á geðheilbrigðismál. Meðal áberandi mála sem ekki hafa verið afgreidd eru þjóðarsjóður, fjölmiðlafrumvarp og hálendisþjóðgarður. Og síðan skall á heimsfaraldur sem kom mönnum í opna skjöldu. 

„Ég myndi vilja nefna þrennt sem lá fyrir í upphafi kjörtímabils að yrðu stór mál. Það eru auðvitað vinnumarkaðsmálin, ég tel að mjög margar þeirra aðgerða sem þegar eru komnar í gagnið og eru á leiðinni í tengslum við Lífskjarasamningana muni skipta verulegu máli fyrir allan almenning og íslenskt samfélag til þess að bæta hér jöfnuð og félagslegt réttlæti. Í öðru lagi loftslagsmálin og það hafa mjög mörg stór skref verið stigin á þessu kjörtímabili með metnaðarfullri aðgerð í loftslagsmálum. Og í þriðja lagi langar mig að nefna mál sem að við erum sömuleiðis stödd í miðju kafi, það er fjórða iðnbyltingin, tækniþróun, sú mikla fjárfesting sem við erum að leggja í stafræna þróun hjá hinu opinbera. Sömuleiðis sú mikla fjárfesting sem við erum að leggja í nýsköpun þannig að Ísland verði í stakk búið til að takast á við þessar tæknibreytingar. Þetta eru verkefni sem maður sá fyrir og er mjög ánægður með hvar standa“ segir Katrín.