
Mistök að þiggja boð Landhelgisgæslunnar um þyrluflug
Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti Áslaugu Örnu í Reynisfjöru á fimmtudaginn þar sem hún var í hestaferð. Flogið var með hana til Reykjavíkur á samráðsfund sem heilbrigðisráðherra efndi til í samstarfi við forsætisráðuneytið og dómsmálaráðuneytið. Forstjóri Landhelgisgæslunnar gaf ráðherra kost á að fá far með þyrlunni á fundinn en þyrluleiðangur var fyrirhugaður sama dag að Langjökli. Ferðin var gagnrýnd og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri Grænna, sagði hana óboðlegt bruðl með almannafé.
Samkvæmt tilkynningu frá Landhelgisgæslunni var hvorki aukakostnaður né aukin fyrirhöfn af ferðinni fyrir Landhelgisgæsluna. Viðbragðsgetan hafi ekki verið skert þar sem þyrlan var fullmönnuð til útkalls. Þá sagði upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar í samtali við fréttastofu í morgun að fordæmi væru fyrir því að ráðherrar flygju með þyrlunni. Hann segir að Gæslunni þyki ekki óeðlilegt að dómsmálaráðherra færi með þyrlunni í umrætt sinn.
„Forstjóri Landhelgisgæslunnar lagði þetta til og var vegna verkefnis á þessu svæði og fullvissaði mig um það að þetta hefði hvorki áhrif á verkefni eða flugáætlun og hefði engan aukakostnað eða fyrirhöfn í för með sér. Það er ljóst að þetta hefur tíðkast þegar það passar inn í verkefni Gæslunnar og það voru mistök af minni hálfu að samþykkja þetta boð,“ segir Áslaug og bætir við að málið hvetji til umhugsunar og að ef til vill sé þörf á að endurskoða verklag.
Áslaug hefur ekki þegið sambærileg boð frá Landhelgisgæslunni áður og hyggst ekki gera það í framtíðinni.
En hefurðu skilning á þessari gagnrýni?
„Já, ég skil það vel. Eftir á að hyggja hefði ég ekki átt að þiggja boðið en að sama skapi var ég fullviss um að þetta hefði engin áhrif á kostnað, verkefni, flugáætlun né fyrirhöfn Gæslunnar,“ segir Áslaug.