Leita að lausnum við textílvandanum með spjaraþoni

Mynd með færslu
 Mynd: Pinterest

Leita að lausnum við textílvandanum með spjaraþoni

25.08.2020 - 15:58
Nú um helgina, 28. og 29. ágúst, fer fram Spjaraþon á vegum Umhverfisstofnunar þar sem leitast verður við að leysa textílvandann, umhverfisáhrif textílframleiðslu og þá sóun og þau vandamál sem fylgja neysluhraðanum í tísku- og textíliðnaðinum.

Spjaraþonið er hakkaþon eða hugmyndasmiðja þar sem þátttakendur læra um vanda textíliðnaðarins, fá fyrirlestra um hann og áskoranirnar sem staðið er frammi fyrir, læra á hönnunarferlið, hvernig þróa á hugmyndir sem hægt er að raungera og þróa svo í framhaldinu lausnir sem geta spornað við sóun í iðnaðinum.

Birgitta Stefánsdóttir, sérfræðingur í teymi græns samfélags hjá Umhverfisstofnun, segir að tímasetningin á Spjaraþoninu sé góð en aukning á neyslu í textílfatnaði hefur aukist mikið og framleiðsla í heiminum hefur tvöfaldast síðan árið 2000. Íslendingar séu að losa sig við meira og meira af textíl sem þýði að þeir séu að kaupa meira og að nota fötin styttra. 

„Við erum líka farin að gera við minna og erum minna að hugsa um hvað vörur endast lengi af því að þær eru svo ódýrar,“ bætir Birgitta við. 

Spjaraþonið er hluti af verkefninu Saman gegn sóun sem er stefna umhverfis- og auðlindaráðherra um úrgangsforvarnir. Níu áhersluflokkar eru í brennidepli í verkefninu og 2020-2021 er áherslan á textíl. „Við þurfum að virkja þessa hringrásarhugsun og virkja bæði neytendur og framleiðendur af því við sem Umhverfisstofnun erum ekki að fara að leysa þetta,“ segir Birgitta. Þess vegna sé mikilvægt að vera í sambandi við aðra bransa sem hugsa öðruvísi, eins og til dæmis í gegnum viðburði eins og Spjaraþonið. 

Í fyrra hélt stofnunin svipað hakkaþon, Plastaþon, sem gekk vel að sögn Brigittu en þar komu fram nokkar góðar hugmyndir. Sigurhugmyndin hét „Beljur í búð“ og sneri að því að auka aðgengi neytenda að umbúðarlausum mjólkurvörum. „Gömlu mjólkurbrúsarnir fengu þar endurnýjun lífdaga og hugmydnin gekk út á það að geta fengið algengustu vörurnar, mjólk, jógúrt, skyr, í margnota umbúðum sem þú kemur með aftur og aftur,“ segir Birgitta. 

Í ár munu þátttakendur geta valið úr fimm áskorunum til að finna lausnir við, hvernig hægt sé að fá almenning til að draga úr neyslu, hvernig stuðlað sé að sjálfbærni í framleiðslu textíls, hvernig almenningur geti lengt líftíma eigin textíls, hvernig hægt sé að tryggja betri og skilvirkari endurvinnslu svo verðmæti tapist ekki og hvernig hægt sé að auka þátttöku almennings í endurvinnslu á textíl. 

Spjaraþonið er opið öllum óháð aldri, kyni eða reynslu og Birgitta segir skráninguna hafa verið mjög góða hingað til og að áhuginn sé mikill. „Þú þarft alls ekki að vera sérfræðingur til að taka þátt heldur bara hafa áhuga á áskorunum og vilja vinna við að þróa hugmyndir að lausnum,“ bætir hún við. Hugmyndin sem sigrar fær svo ráðgjafatíma í verðlaun, frá bæði Umhverfisstofnun og Icelandic Startups, þar sem teymin verða aðstoðuð við að finna hugmyndinni farveg auk þess sem þau fá að kynna verkefnið fyrir fólki í atvinnulífinu sem gætu tekið við þeim.

Fleiri upplýsingar um Spjaraþonið og skráningarform má nálgast hér.