Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kínverjar og Bandaríkjamenn vilja halda lífi í samningi

Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay
Samningamenn Kína og Bandaríkjanna ræddu saman í síma í gær um viðskiptasamning milli ríkjanna. Þeir kveðast sammála um að nauðsynlegt sé mynda þær aðstæður og andrúmsloft sem þurfi halda áfram þar sem frá var horfið fyrr á árinu.

Spennan hefur aukist

Samkomulag var undirritað í janúar sem markaði ákveðin tímamót í tollastríði ríkjanna. Þar var ákveðið að Kínverjar keyptu bandarískar vörur af margvíslegu tagi að andvirði 200 milljarða Bandaríkjadala.

Næstu tvö árin hugðust Kínverjar því flytja inn bandarískar bifreiðar, vélbúnað, olíu og landbúnaðarafurðir svo eitthvað sé nefnt. Kórónuveirufaraldurinn skall á skömmu síðar og lítið sem ekkert hefur verið um viðskipti milli ríkjanna.

Spennan milli ríkjanna hefur aukist mjög á undanförnum mánuðum. Ástæðurnar eru meðal annars faraldurinn sjálfur, deilan vegna fjarskiptarisans Huawei, ásakanir um að smáforritið Tik Tok sé notað til njósna og framkoma Kínastjórnar gagnvart íbúum Hong Kong og Xinjiang-héraðs.

Ríkin reiðubúin að stíga þau skref sem nauðsyn ber

Bandaríkjamenn segja í yfirlýsingu að samningamenn ríkjanna hafi rætt þau skref sem Kínastjórn hefði tekið til að tryggja hugverkaréttindi og afnám tálmana á bandarísk fjármálafyrirtæki og framleiðendur landbúnaðarafurða.

Bandaríkjamenn og Kínverjar segjast sammála um að samtalið hafi verið uppbyggilegt og að bæði ríki séu reiðubúin að stíga þau skref sem þurfi til að tryggja að staðið verði við samkomulagið frá í janúar.

Undanfarnar vikur hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti beint spjótum sínum harkalega að Kína sem kveikir spurningar um örlög samningsins. Trump er í þann mund að leggja upp í harða kosningabaráttu þar sem búast má við að ýmsar ávirðingar í garð Kínastjórnar og kínverskra fyrirtækja beri iðulega á góma.