Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Hvetja foreldra til að fylgja börnum fyrstu skóladagana

25.08.2020 - 14:58
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Samgöngustofa bendir foreldrum barna sem hefja skólagöngu í haust á að fylgja þeim í skólann fyrstu dagana og hjálpa þeim að velja öruggustu leiðina. Hildur Guðjónsdóttir, hópstjóri í öryggis- og fræðsludeild Samgöngustofu, hvetur foreldra til að setja börnum einfaldar reglur og gefa þeim hollráð í umferðinni.

„Þó að barnið geti gengið eitt í skólann þá er nauðsynlegt að það fái fylgd fyrstu dagana undir góðri leiðsögn frá fullorðnum fyrirmyndum,“ segir Hildur í samtali við fréttastofu. Samgöngustofa hefur gefið út tíu ráð til foreldra og barna.

Á vef samgöngustofu má svo finna samantekt um umferðaröryggi barna sem Hildur ráðleggur foreldrum að skoða með börnum í upphafi skólaárs. Þá segir hún gott að hafa í huga að börn noti ýmiss konar farartæki til að komast til og frá skóla; svo sem reiðhjól, hlaupahjól, rafhlaupahjól og létt bifhjól. 

„Og þá er mjög mikilvægt að allir, bæði forsjáraðilar, starfsfólk í skóla og nemendurnir sjálfir, kynni sér reglurnar og öryggisatriðin sem fylgja þessum tækjum. Því þau eru mjög góð og sniðug ef þau eru notuð rétt,“ segir hún.