Samstarf á verkstaðnum hefur gengið vel og óveðrið í vetur tafði ekki fyrir, að sögn Karls Péturs Jónssonar, verkefnastjóra upplýsinga- og kynningarmála hjá Framkvæmdasýslu ríkisins. Nú er verið að þurrka upp kjallara hússins svo að hægt verði að hefja þar innivinnu. Karl Pétur segir í að framkvæmdirnar séu mjög vel skipulagðar og að það eigi eflaust sinn þátt í að sumir þættir séu á undan áætlun.
Húsið verður eins og sívalningur í laginu og samtals fjórar hæðir, sé kjallarinn talinn með. Karl Pétur segir að sívalningur sé nokkuð flókið form að vinna með. Þá sé bygging hússins einnig flókin tæknilega. Sérhönnuð rými verða fyrir varðveislu, rannsóknir og sýningu á íslenskum skinnhandritum. Karl Pétur segir að nýjustu tækni verði beitt til að vernda þessar gersemar íslenskrar sögu. Huga þurfi vel að raka- og hitastigi og aðgangsstýringum, svo dæmi séu tekin.