Hús íslenskunnar að rísa og holan horfin

Mynd: Framkvæmdasýsla ríkisins / Aðsend mynd

Hús íslenskunnar að rísa og holan horfin

25.08.2020 - 13:44

Höfundar

Bygging Húss íslenskunnar við Arngrímsgötu í Reykjavík gengur vel og er uppsteypa á þriðju og efstu hæð hússins hafin, mánuði á undan áætlun. Byggingin á sér langan aðdraganda og var stór opin hola á þessu svæði frá árinu 2013 til 2019.

Samstarf á verkstaðnum hefur gengið vel og óveðrið í vetur tafði ekki fyrir, að sögn Karls Péturs Jónssonar, verkefnastjóra upplýsinga- og kynningarmála hjá Framkvæmdasýslu ríkisins. Nú er verið að þurrka upp kjallara hússins svo að hægt verði að hefja þar innivinnu. Karl Pétur segir í að framkvæmdirnar séu mjög vel skipulagðar og að það eigi eflaust sinn þátt í að sumir þættir séu á undan áætlun. 

Húsið verður eins og sívalningur í laginu og samtals fjórar hæðir, sé kjallarinn talinn með. Karl Pétur segir að sívalningur sé nokkuð flókið form að vinna með. Þá sé bygging hússins einnig flókin tæknilega. Sérhönnuð rými verða fyrir varðveislu, rannsóknir og sýningu á íslenskum skinnhandritum. Karl Pétur segir að nýjustu tækni verði beitt til að vernda þessar gersemar íslenskrar sögu. Huga þurfi vel að raka- og hitastigi og aðgangsstýringum, svo dæmi séu tekin. 

Mynd með færslu
 Mynd: Mennta- og menningarmálaráðun

Verklok áætluð haustið 2023

Áætlað er að húsið verði tilbúið um haust árið 2023. Þar verður starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Þar verða einnig vinnustofur kennara og fræðimanna, lesrými fyrir háskólanema, fyrirlestra- og kennslusalir, skrifstofur og bókasafn.

„Hús íslenskunnar mun gerbreyta starfsemi Árnastofnunnar og allri þjónustu við almenning, skólafólk og ferðamenn. Samstarfið við Háskóla Íslands í húsinu mun skapa mýmörg ný tækifæri, en einnig nábýlið við Þjóðarbókhlöðuna og Þjóðminjasafnið hinum megin við götuna. Við getum ekki beðið eftir að fylla bygginguna lífi,“ er haft eftir Guðrúnu Nordal forstöðumanni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í tilkynningu á vef menntamálaráðuneytis.

Svæðið var kallað „hola íslenskra fræða“

Það gekk ekki klakklaust að hefja byggingu Húss íslenskunnar. Alþingi samþykkti árið 2005 að leggja fé til byggingarinnar. Í ágúst 2008 lá fyrir niðurstaða í hönnunarsamkeppni og til stóð að hefja framkvæmdir. Í október það ár reið hrunið yfir og öllum framkvæmdum var slegið á frest. Katrín Jakobsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra, tók fyrstu skóflustunguna að byggingunni árið 2013 og grafin var stór hola fyrir grunni hússins. Framkvæmdum var frestað og hófust ekki fyrr en í fyrra. Holan stóð því opin í sex ár og var stundum köllum „hola íslenskra fræða“.

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV

Sjá má myndband frá Framkvæmdasýslu ríkisins af framkvæmdunum síðan í fyrrasumar og þar til í gær í spilaranum hér fyrir ofan.

Tengdar fréttir

Innlent

Framkvæmdir við hús íslenskunnar að hefjast

Innlent

Hús íslenskunnar mun kosta um 6,2 milljarða

Stjórnmál

Fær 120 milljónir vegna „holu“ íslenskra fræða

Menningarefni

Vill svör um Hús íslenskra fræða