Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Hjúkrunarfræðingar og ljósmæður ávísi getnaðarvörnum

Getnaðarvarnar pillan
 Mynd: Fréttir
Hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum verður heimilt að ávísa hormónalyfjum til getnaðarvarna frá áramótum, samkvæmt nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra. Markmið reglugerðarinnar er að auka aðgengi að getnaðarvörnum og stuðla þannig að auknu kynheilbrigði.

Sóley S. Bender, prófessor við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og sérfræðingur í kynheilbrigði, fagnar breytingunni og segir hana löngu tímabæra.

Mikilvægt aðgengis- og gæðamál

„Það sem skiptir þarna miklu máli er aðgengi að kynheilbrigðisþjónustu sem ráðgjöf um getnaðarvarnir fellur undir. Og síðan er þetta gæðamál,“ segir Sóley í samtali við fréttastofu. Hún telur að með breytingunni megi búast við að fólk fái aðgang að meiri fræðslu og ráðgjöf en áður. 

„Þarna getur þá viðkomandi starfsmaður, hvort sem það er hjúkrunarfræðingur eða ljósmóðir, rætt um getnaðarvarnirnar frá A til Ö og veitt þá ráðgjöf sem þörf er á hverju sinni og lokið því viðtali með ávísun. Þannig það skiptir miklu máli að við þurfum ekki að vísa frá okkur hvað lokaþáttinn varðar,“ segir Sóley. 

Hefði átt að breytast fyrir áratugum

Þá segir hún löngu tímabært að hjúkrunarfræðingar og ljósmæður fái leyfi til að ávísa getnaðarvarnarlyfjum, enda hafi það tíðkast í nágrannalöndum okkar í áratugi. Sóley segir að læknar hafi ítrekað sett sig upp á móti því að starfsvið hjúkrunarfræðinga yrði víkkað út með þessum hætti.

„Það eru ákveðnar starfstéttir, aðallega læknar, sem hafa sett sig á móti því að það verði breytt fyrirkomulag með þetta, þrátt fyrir það að í áratugi hafi hjúkrunarfræðingar og ljósmæður haft leyfi til að ávísa alls kyns lyfjum, ekki bara hormónagetnaðarvörnum í nágrannalöndunum,“ segir hún. Það skjóti skökku við í ljósi þess að hér á landi hafi verið hámenntaðir hjúkrunarfræðingar og ljósmæður í áratugi. 

„Þetta er búið að vera margra ára baráttumál og mikið verið unnið með embætti landlæknis að því, því það embætti var tilbúið að styðja þetta málefni mjög snemma, fyrir um tuttugu árum síðan,“ segir Sóley. 

Halda námskeið fyrir hjúkrunarfræðinga og ljósmæður

Hjúkrunarfræðingar og ljósmæður þurfa að sækja um leyfi til embættis landlæknis til að ávísa lyfjunum og uppfylla tiltekin skilyrði. Til dæmis er gerð til þeirra krafa um að hafa lokið sérstöku námskeiði. „Og við erum þegar byrjuð að halda námskeið fyrir þessar starfstéttir,“ segir hún.