Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Hafa meiri áhyggjur af COVID en fylgja síður fyrirmælum

25.08.2020 - 21:06
Mynd: RÚV / RÚV
Íslendingar hafa meiri áhyggjur af COVID-19 kórónuveirufaraldrinum í annarri bylgju en þeirri fyrstu, en eru samt ólíklegri en áður til að fara að fyrirmælum almannavarna.

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur undanfarið kannað afstöðu Íslendinga til ýmissa mála tengdum Covid-19 faraldrinum og er þetta meðal þeirra niðurstaðna sem þar er að finna.

Jón Gunnar Bernburg, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands var gestur í Kastljósinu í kvöld. Hann kynnti þar ýmsar niðurstöður könnunar sem stofnunin hefur, frá því í byrjun apríl, sent daglega á 400 manna netpanel.

Fóru af stað í miðju kófinu

„Við fórum af stað í miðju kófinu og langaði að nota aðferðir félagsfræðinnar til að taka púlsinn í miðjum faraldrinum,“ segir Jón Gunnar. Þetta segir hann meðal annars hafa verið gert til að komast að því að hve miklu leyti íslenskur almenningur taki þátt í sóttvarnaraðgerðum og eru niðurstöðurnar aðgengilegar á vef Félagsvísindastofnunar.

Rannsókn félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands á viðhorfum landsmanna til COVID-19
 Mynd: Félagsvísindastofnun HÍ

Könnunin sýnir að að svipaður fjöldi, eða um 70%, hafði miklar áhyggjur af COVID-19 faraldrinum þann 1. apríl er fyrsta bylgja faraldursins var komin vel á veg og 8. ágúst, er önnur bylgja var að ná hámarki.

Þeim sem hafa miklar áhyggjur af faraldrinum hefur hins vegar ekki fækkað jafn ört í annarri bylgju og þeirri fyrstu.

Rannsókn félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands á viðhorfum landsmanna til COVID-19
 Mynd: Félagsvísindastofnun HÍ

Er fólk er spurt að hve miklu leyti það fylgi tilmælum embættis Landlæknis og almannavarna þá eru þeir færri nú sem telja sig gera það að miklu leyti, en gerðu slíkt í fyrri bylgju faraldursins.

1. apríl töldu tæp 90% svarenda sig fylgja tilmælunum að mestu leiti, en 8.apríl var hlutfallið rúm 70%. Fjöldinn sem telur sig fylgja fyrirmælunum nú hefur þó haldist stöðugri en í fyrstu bylgju.

„Það má heldur ekki draga úr því að verulegur fjöldi svarenda fylgir tilmælunum,“ segir Jón Gunnar og bætir við að það sé þó vissulega áhugavert að sjá að þrátt fyrir auknar áhyggjur sé fólk ekki jafn tilbúið að fylgja fyrirmælunum og áður.

 

Rannsókn félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands á viðhorfum landsmanna til COVID-19
 Mynd: Félagsvísindastofnun HÍ

Ástæðu þessa kann að hluta að vera að finna í svörum við þeirri spurningu félagsmálastofnunar hvort fólk telji líklegt að núverandi sóttvarnaraðgerðir dugi.

1. apríl voru tæp 60% þeirrar skoðunar að aðgerðirnar myndu duga og fór hlutfallið hátt í 75% er best var. Er seinni bylgjan hófst var hlutfallið hins vegar um 30% en hefur þó farið vaxandi. „í seinni bylgju er trúin á árangur rétt um 40%, þannig að það er augljóslega miklu minni trú á að aðgerðirnar muni skila árangri,“ segir Jón Gunnar. 

„Faraldurinn tók sig upp aftur og það hlýtur að draga úr trú fólks,“ bætir hann við. Þá verði að horfa til þess að smitum hafi fjölgað eftir að stjórnvöld fóru að horfa líka til efnahagslegra hagsmuna með því til að mynda að opna landið aftur.

 

Rannsókn félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands á viðhorfum landsmanna til COVID-19
 Mynd: Félagsvísindastofnun HÍ

Jón Gunnar bendir á að annar mikilvægur þáttur sé væntanlega að færri telji nú en áður að þeir sem þeir eru í mestum samskiptum við fylgi tilmælum landlæknis og almannavarna.

1. apríl töldu rúm 80% sína nánustu fylgja tilmælunum, en 8. ágúst voru tæp 60% verið þeirrar skoðunar. Sá fjöldi hefur þó haldist nokkuð óbreyttur það sem af er annarri bylgju, á meðan hann fór hratt niður eftir því sem leið á fyrstu bylgju.

„í miðju kófinu þá eru 75-80% að upplifa samstöðu í kringum sig með aðgerðunum,“ segir Jón Gunnar. „8. ágúst eru þeir ekki að skynja eins mikla samstöðu með aðgerðunum. Þá er þetta komið niður 60%, sem er samt há prósentutala.“

Hann bendir á að það sé mikil fórn að taka þátt í slíkum aðgerðum, þar sem þeim fylgi töluverð frelsisskerðing. Það sé því ekki sjálfgefið að ná þeirri samstöðu sem aðgerðirnar hafa notið.

„í miðju kófinu voru væntingar um að aðgerðirnar skiluðu árangri mjög miklar,“ segir Jón Gunnar. Nú erum við hins vegar stödd í annarri bylgju og mögulega komi sú þriðja líka. Trúin aðgerðir sé því að minnka og sömuleiðis upplifun um samstöðu.

Með þetta í huga sé á vissan hátt óumflýjanlegt að þurft hafi að koma til þess að refsingum og eftirliti yrði beitt, líkt og lögregla hefur þurft að gera að undanförnu. „Nú þurfum við að fara að treysta á formlegt aðhald með borgurunum,“ segir hann.

 

Anna Sigríður Einarsdóttir