Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

GAJA hefur ekki fengið starfsleyfi

25.08.2020 - 19:36
Innlent · GAJA · Sorpa
GAJA, gas- og jarðgerðarstöð Sorpu í Álfsnesi, hefur ekki fengið starfsleyfi og hefur því ekki getað hafið formlega starfsemi. Umhverfisráðherra hefur þó veitt tímabundna undanþágu svo prófanir geti hafist. Framkvæmdastjóri Sorpu telur að full starfsemi verði hafin í byrjun næsta árs.

Framkvæmdir við GAJU hófust í október 2018. Upphaflega stóð til að hefja þar framleiðslu á metani og moltu síðasta vor. Það gekk ekki eftir en í júní var stöðin tilbúin. Þá var áætlað að vinnsluferlið myndi hefjast eigi síðar en í byrjun júlí. Það gekk ekki vegna þess að Sorpa hefur enn ekki fengið útgefið starfsleyfi fyrir stöðina. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafði raunar gefið Sorpu undanþágu á starfsleyfinu til að hefja prófanir, en Umhverfisráðuneytið gerði athugasemdir við undanþáguna og dró hana til baka á þeim forsendum að eftirlitið hefði ekki heimild til slíks.

Sjaldgæft að undanþágur séu veittar

Sorpa sótti þá um undanþágu til umhverfisráðherra 15. júní, sem svo veitti hana seint í júlí. Þar kemur fram að sjaldgæft sé að veitt sé undanþága til að hefja starfsemi en að það hafi verið gert í þessu tilviki svo hægt sé að taka við 350-400 tonnum af lífrænum úrgangi á viku, sem ætti sér annars engan annan farveg en urðun þar sem gas- og jarðgerðarstöðin gæti ekki tekið við honum til vinnslu.

Starfsleyfið í vinnslu í næstum ár

Framkvæmdastjóri Sorpu segir að starfsleyfið hafi verið í vinnslu í næstum ár.

„Þannig núna er bara verið að vinna starfsleyfið á miklum hraða í Umhverfisstofnun. Ég hef ekki heyrt annað en að þetta sé í góðum farvegi. Ég held þetta sé alveg eðlilegt og við höfum unnið bara í góðri trú, en þarna kom upp einhver óvissa varðandi stjórnsýsluna,“ segir Helgi Þór Ingason, starfandi forstjóri Sorpu.

„Það eru alls konar vandamál sem koma upp eins og við vissum, og svo þarf að leysa þau bara dag frá degi. Það ætlaðist enginn til að við værum komin í fulla vinnslu í ágústmánuði,“ segir hann.

Telur að full starfsemi verði hafin í byrjun næsta árs

Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun er stefnt á að starfsleyfið verði gefið út 30. október.

„Ég býst við því að fyrsta moltan komi frá stöðinni í lok ársins, nóvember, desember. Full starfsemi, fyrri hluta næsta árs,“ segir Helgi Þór.

Eigendur setja milljarð í reksturinn

Framkvæmdir við GAJU hafa þegar kostað á sjötta milljarð króna og eigendur Sorpu, sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, samþykktu nýverið að leggja aukið fé til rekstursins.

„Eigendur samlagsins ákváðu í byrjun júli að leggja því til stofnfé, það er kallað hlutafé á mannamáli, og það eru samtals þúsund milljónir. 200 voru lagðar fram í júní. 300 verða lagðar fram í september og svo 500 í janúar á næsta ári. Samtals milljarður í nýtt stofnfé,“ segir Helgi Þór.