Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Fleiri smit greinast á Huldubergi

25.08.2020 - 19:15
Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd: RÚV
Nokkrir starfsmenn leikskólans Huldubergs í Mosfellsbæ hafa greinst smitaðir af COVID-19. Greint var frá því á sunnudag að öll börn og allir starfsmenn leikskólans yrðu að fara í 14 daga sóttkví eftir að kórónuveirusmit greindist hjá starfsmanni á leikskólanum. Starfsmaðurinn hafði nýlega verið á Hótel Rangá.

Linda Udengård, framkvæmdastjóri fræðslu- og frístundasviðs hjá Mosfellsbæ, staðfestir í samtali við fréttastofu að fleiri starfsmenn hafi nú greinst smitaðir af veirunni.

Hún vill ekki gefa upp hversu margir þeir séu, utan að þeir séu færri en fimm.

„Þetta hefur smám saman að vera að koma inn til rakningateymisins þannig að við erum í sömu stöðu og við vorum um helgina,“ segir Linda.

Foreldrar barna á leikskólanum eru reglulega upplýstir um stöðu mála. Þar sem þau börn sem eru á leikskólanum þurftu líka að fara í sóttkví hefur að minnsta kosti annað foreldranna þurft að fara í sóttkví með barninu. „Þannig að þetta er mikið inngrip í líf fjölskyldna,“ segir Linda og kveður fólk engu að síður taka málinu af ótrúlegri ró. „Það eru vissulega einhverjir ráðvilltir en við reynum að styðja fólk með upplýsingafólk eins og við getum.“

Hún hvetur alla til að kynna sér reglur almannavarna um sóttkví og segir aldrei vera of varlega farið.

Leikskólinn verður lokaður til 3. september og enginn fer þangað inn þessa dagana, en að sögn Lindu verður hann sótthreinsaður í hólf og gólf áður en starfsemi hefst þar að nýju.