Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Aukin umsvif hryðjuverkamanna í Írak og Sýrlandi

25.08.2020 - 10:58
Deilur og stríð · Erlent · Afríka · Afganistan · Asía · Burkina Faso · Írak · Maldíveyjar · Malí · Níger · sýrland
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Um 10.000 virkir liðsmenn hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki eru enn í Írak og Sýrlandi tveimur árum eftir að samtökin voru yfirbuguð í löndunum tveimur. Þetta sagði Vladimir Voronkov, fullrúi Sameinuðu þjóðanna í baráttunni gegn hryðjuverkjastarfsemi, á fundi í öryggisráði samtakanna í gærkvöld. 

Á fundinum sem fór fram í gegnum fjarfundarbúnað fjallaði Voronkov um umsvif samtakanna víðs vegar um heim. Hann sagði samtökin hafa safnað liði á ný í Írak og Sýrlandi og aukið umsvif sín, ekki síst á átakasvæðum. Liðsmenn samtakanna ferðuðust gjarnan í litlum hópum milli landanna tveggja.

Þá hefðu samtökin sig talsvert í frammi í vesturhluta Afríku, í Burkina Faso, Malí og Níger, einnig í Líbíu og árásir hefðu verið gerðar í nafni þeirra í Kongó og Mósambík.

Samtökin hefðu auk þess náð fótfestu í nokkrum héruðum Afganistans og reyndu að fá til liðs við sig liðsmenn Talibana sem óánægðir væru með nýgerðan samning við Bandaríkjamenn. Enn fremur hefðu samtökin staðið á bak við árásir víðar í Asíu þar á meðal á Maldíveyjum í apríl. 

Voronkov sagði að aðgerðir til að takmarka útbreiðslu kórónuveirufaraldursins virtust víða hafa dregið úr hættunni á hryðjuverkum til skamms tíma, en Íslamska ríkið og önnur hryðjuverkasamtök leituðust við að notfæra sér sundrung og neikvæð félags- og efnahagsleg áhrif af völdum farsóttarinnar.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV