Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

ASÍ varar við auglýsingum um nýtt stéttarfélag

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Drífa Snædal, forseti ASÍ, sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem hún varar við auglýsingum um nýja stéttarfélagið Kóp. Drífa segist í samtali við fréttastofu óttast að auglýsingarnar séu ekkert nema peningaplokk. „Af því sem við verðum áskynja er hreinlega verið að blekkja fólk,“ segir hún. 

Auglýsingunum er sérstaklega beint að Pólverjum sem starfa á Íslandi. „Við höfum fengið athugasemdir frá pólskum félögum okkar sem hafa fylgst með þessu, vita hvernig verkalýðshreyfingin á Íslandi virkar, og segja að þeir hafi verið að gefa misvísandi upplýsingar. Mér skilst að það standi í lögum þessa nýja félags að þau séu aðili að Starfsgreinasambandinu og þar með Alþýðusambandi Íslands, sem er náttúrulega ekkert rétt,“ segir hún. 

Þykjast tengjast Alþýðusambandi Íslands

„Í kynningu á félaginu er látið í veðri vaka að það hafi aðgang að öllum þeim gæðum og þjónustu við félagsmenn sem íslensk verkalýðshreyfing hefur byggt upp um áratuga skeið og jafnvel að félagið sé tengt Alþýðusambandi Íslands. Þetta er rangt,“ segir í yfirlýsingunni sem ASÍ sendi frá sér í dag. 

Þá er áréttað að engin tengsl séu milli ASÍ og Kóps, félagið hafi hvorki fræðslusjóði né sjúkrasjóði, eigi ekki aðild að Bjargi íbúðafélagi og heldur ekki VIRK-starfsendurhæfingu. Félagsmenn Kóps myndu þannig ekki njóta þeirra réttinda sem félagsmenn félaga sem heyra undir ASÍ njóta.

„ASÍ hvetur til að þessum upplýsingum sé dreift sem víðast og komið í veg fyrir að launafólk afsali sér óafvitandi réttindum sem verkalýðshreyfingin hefur byggt upp um áratuga skeið,“ segir í yfirlýsingunni að lokum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Facebook

Ekki náðist í forsvarsmenn Kóps við gerð þessarar fréttar. Félagið hefur vefsíðuna https://www.mojaislandia.com/is/ og á Facebook-síðu þess má sjá færslur frá formanninum, Stanley Kowal. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV