
Yfirheyra Nóbelsverðlaunahafa vegna mótmæla
Tveir aðrir úr ráðinu voru handteknir fyrr í dag, verkfallsleiðtogi verksmiðjustarfsmanna og náin samstarfskona Svetlönu Tíkanovskaju, forsetaframbjóðanda. Þeim er gefið að sök að hafa boðað til ólöglegra verkfalla og mótmæla. Tugir þúsunda komu saman í miðborg Minsk í gær og kröfðust þess að forsetinn fari frá.
Rithöfundurinn Alexievich er 72 ára gömul og er stuðningsmaður Tíkanovskaju. Hún hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 2015 og er meðal annars þekkt fyrir viðtalsbók sína við konur sem gegndu herþjónustu í seinni heimsstyrjöldinni. Þá hefur hún skrifað um kjarnorkuslysið í Tsjernobyl og innrás Sovétmanna í Afganistan.
Fyrrum menningarmálaráðherra Hvíta-Rússlands, Pavel Latushko, sem einnig á sæti í samhæfingarráðinu, hefur verið boðaður til yfirheyrslu á morgun.
Ekkert lát er á mótmælum gegn framkvæmd forsetakosninga í Hvíta-Rússlandi 9. ágúst. Yfirvöld lýstu því yfir að Lukasjenko hafi fengið um 80 prósent atkvæða en almenningur telur það útilokað og krefst þess að kosið verði á ný.
Tikhanovskaja kvartaði til yfirvalda daginn eftir kosningarnar og neyddist í kjölfarið til að flýja land. Hún dvelur í nágrannaríkinu Litháen. Í dag átti hún fund með Stephen Biegun, varautanríkisráðherra Bandaríkjanna. Á fundinum fordæmdi hann ofbeldið sem lögregla hefur beitt mótmælendur. Tikanovskaya sagði á fundinum að Lukasjenko hafi hvorki stuðning Hvít-Rússa né alþjóðasamfélagsins.