Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tívolíbomba sprakk í höndum manns í Heiðmörk

24.08.2020 - 09:50
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Karlmaður missti hluta handleggs þegar hann kveikti í tívolíbombu sem hann gekk fram á í Heiðmörk á sjöunda tímanum í gærkvöld. Slíkar sprengjur eru ekki selda almenningi og eru stórvarasamar, að sögn Skúla Jónssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns.

„Það kemur í ljós þegar lögregla kemur þarna að það vantar stóran hluta af vinstri hendi manns á sextugsaldri sem var þarna. Pólskur ríkisborgari. Hafði verið þarna á göngu með konu sinni. Í rjóðri við göngustíginn finna þau þarna eða verða á vegi þeirra flugeldar, virðast vera tívolíbombur og maðurinn fer eitthvað að fikta við aðra tívolíbombuna og ber eld að og hún springur þarna í höndunum á honum með fyrrgreindum afleiðingum. Konan bregst nú strax við og fer úr peysunni og vefur um hendi mannsins og kallar eftir hjálp.“ segir Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn.

Sprengjur sem þessar eru ekki seldar almenningi, heldur aðeins til þeirra sem standa fyrir flugeldasýningum. Lögregla beinir þeim tilmælum til fólks að tilkynna strax ef það verður vart við sprengjur á víðavangi og taka þær alls ekki upp.  Arnór Eyþórsson sprengjusérfræðingur hjá Ríkislögreglustjóra segir að meðhöndlun flugelda sé varasöm og hættuleg. 

„Ef að svona tívolíbomba springur á jörðu niðri þá getur það slasað fólk sem kann að vera nærri slíku og getur líkahaft í för með sér íkveikjuhættu og hættu á eignarspjöllum. “ segir Arnór.

Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn hjá LRH segir að maðurinn hafi gengið fram á flugeldinn og tekið hann upp.Flugeldurinn sprakk í höndunum á honum.

„Það er kannski ekki alveg búið að finna út úr því með afgerandi hætti en við teljum að þetta hafi verið þriggja tommu tívolíbomba. Önnur eins fannst á vettvangnum og var henni eytt af sprengjusérfræðingum frá Ríkislögreglustjóra.“ segir Ásgeir.

Hann segir að sprengjurnar hafi greinilega verið skildar eftir ósprungnar. Það sé alvarlegt og stórhættulegt. Heiðmörk sé fjölfarið  útivistarsvæði.  Gangi fólk fram á slíkar sprengjur þurfi að tilkynna slíkt til lögreglu og alls ekki taka þær upp. 

„Eins líka að foreldrar taki þetta samtal við börnin sín, því að þetta getur, eins og í þessu tilfelli haft verulega alvarlegar  afleiðingar.“ segir Ásgeir. 

Fréttin hefur verið uppfærð

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV