Þyrlan flutti dómsmálaráðherra úr hestaferð á fund

Mynd með færslu
 Mynd: Landhelgisgæslan - RÚV
Land­helg­is­gæsl­an flutti Áslaugu Örnu Sig­ur­björns­dótt­ur dóms­mála­ráð­herra úr hesta­ferð á Suð­ur­landi á samráðsfund heilbrigðisráðherra, sem haldinn var síðasta fimmtudag, og svo aftur til baka.

Stundin greinir frá þessu og segir að dag­inn eftir flugferðina hafi ráðherra svo farið í smitgát eftir að til­kynnt hafði verið um hópsmit­ið á Hót­el Rangá, þar sem ríkisstjórnin hafði snætt.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu og segir forstjóra Landhelgisgæslunnar hafa boðið ráðherra far á fundinn. Segir hann ráðherra og Georg Kr. Lárusson, forstjóra Landhelgisgæslunnar, ræðast oft við.

Þegar í ljós hafi komið að þyrlan væri að störfum við Langjökul þennan sama dag hafi Áslaugu Örnu, sem er æðsti yfirmaður Gæslunnar, verið boðið far. Engar tímabreytingar hafi hins vegar verið gerðar á flugi þyrlunnar til að aðlaga flugið áætlunum ráðherra.

Ásgeir segir sjaldgæft að flogið sé með ráðherra, en þó sé algengt að flug með ráðamenn séu sett innan svona verkefna eða æfingar í þau skipti sem þau beri saman.

Flugstjórinn í sóttkví

Flugstjóri þyrlunnar er nú í sóttkví þar sem hann reyndist í innri hring hópsmitsins sem greindist á Hótel Rangá og þurfti að fara í 14 daga sóttkví, en hann hafði snætt morgunverð þar á sunnudagsmorgun.

Áslaug Arna var hins vegar í ytri hring smitsins eftir kvöldverð ráðherra ríkisstjórnarinnar þar á þriðjudagskvöld.

Að sögn Ásgeirs hefur flugstjórinn farið í eina skimun sem kom vel út og hefur ekki verið talin ástæða til að prófa aðra meðlimi áhafnarinnar þar sem allir sem um borð koma þurfa að vera með grímur og hanska.

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi