Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segja vondar samgöngur hafa slæm áhrif á nemendur

24.08.2020 - 10:15
Mynd með færslu
 Mynd: Valgeir Örn Ragnarsson - Aðsend mynd
Kennarar í Grunnskóla Húnaþings vestra á Hvammstanga segjast kvíða því að hefja enn eitt skólaárið án þess að samgöngur í sveitarfélaginu hafi verið bættar. Sumir nemendur þurfa að sitja í tvo klukkutíma á dag í skólabíl á misgóðum malarvegum.

Það eru miklar framkvæmdir við grunnskólann á Hvammstanga og 1200 fermetra viðbygging mun gera kleift að sameina starf grunnskóla og tónlistarskóla á einum stað. Þessi uppbygging og hugsun til framtíðar þykir samt ekki í samræmi við það sem nemendur og kennarar þurfa að búa við í samgöngum.

default
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
1200 fermetra viðbygging við grunnskólann á Hvammstanga

Hafa áhyggjur af velferð nemendanna

Það eru um 150 nemendur í skólanum, tæplega helmingur þeirra býr í dreifbýli og þarf að ferðast um langan veg með skólabíl á hverjum degi. „Og eins og staðan er núna hafa kennarar lýst yfir áhyggjum út af hópi nemenda,“ segir Guðrún Ósk Steinbjörnsdóttir, námsráðgjafi við Grunnskóla Húnaþings vestra. „Hvernig þeir verða í stakk búnir til að takast á við námið þegar þeir koma hérna, ef vegir verða í jafn slæmu ásigkomulagi eins og þeir verða oft á haustin.“

Aksturstími skólabíla lengdist um 40 mínútur á dag

Þarna er vegurinn fyrir Vatnsnes langverstur og íbúar hafa ítrekað kvartað yfir ástandi hans. Börn hafa komið bílveik og illa haldin í skólann eftir ferðir um veginn með skólabíl. Guðún segir að foreldrar hafi rætt það að hætta að senda börnin í skólann við þessar aðstæður. „Aksturstími þeirra á dag lengdist um allt að 40 mínútur, vegna þess að vegirnir voru í það slæmu ásigkomulagi að það var hreinlega ekki hægt að keyra þá.“

Endurbætur á Vatnsvegi á áætlun árið 2030

Endurbætur á Vatsnesvegi eru á þriðja tímabili samgönguáætlunar og hefjast samkvæmt því ekki fyrr en 2030. Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, segir afar brýnt að færa veginn framar í áætluninni. „Og við erum að sjá það núna að krakkar sem eru að byrja í fyrsta bekk, þeir munu ef við fáum veginn ekki framar í áætlun, þá munu þeir öll þessi tíu ár sem þeir eru í grunnskóla vera á ónýtum vegi.“