Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ólæti og handtökur í París eftir tap PSG

24.08.2020 - 01:20
epa08621312 Paris Saint-Germain supporters cheer outside Le Parc des Princes stadium before the UEFA Champions League final match between Bayern Munich and Paris Saint-Germain in Paris, France, 23 August 2020.  EPA-EFE/Mohammed Badra
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Meira en 80 voru handtekin í París í kvöld eftir eitt núll sigur Bayern München á Paris Saint-Germain í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.

Lögregluyfirvöld í borginni greindu frá þessu á Twitter.

Óeirðalögregla var kölluð út vegna fólksfjölda sem hafði í frammi óspektir á Champs-Elysées breiðgötunni. Fólksfjöldanum og lögreglu laust saman og við það var beitti táragasi til að dreifa fólki.

Yfir 5.000 höfðu safnast saman til að hvetja PSG til dáða í Parc des Princes leikvanginum. Fylgst var með viðureign liðanna á risaskjá. Allar reglur um fjarlægð milli fólks voru þverbrotnar, innan og utan leikvangsins en hann tekur þó vanalega um 48 þúsund áhorfendur. 

Kveikt var í ruslatunnum og bílum, rakettum skotið að lögreglu og flöskum kastað í lögreglubíla. 

Fréttin var uppfærð kl. 3:57.

 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV