Logi Pedro - Undir bláu tungli

Mynd: Logi Pedro / Logi Pedro

Logi Pedro - Undir bláu tungli

24.08.2020 - 15:20

Höfundar

Tónlistarmaðurinn Logi Pedro gaf Undir bláu tungli út í síðustu viku. Platan er önnur breiðskífa hans en frumraun hans Litlir svartir strákar kom út sumarið 2018. Sú plata hlaut einróma lof gagnrýnenda, tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna og streymi/sala á plötunni náði gullsölu Félags hljómplötuframleiðanda.

Undir bláu tungli er hljóðrituð í Síerra Leóne í Vestur-Afríku og hér á Íslandi. Haustið 2018 og vorið 2019 fór Logi Pedro í upptökuverkefni á vegum Aurora Foundation til Síerra Leóne. Í ferðinni kynntist Logi nútímalegri afrískri popptónlist, sem í daglegu tali er kölluð Afrobeats eða Afropop. Úr varð íslensk poppplata með sterkum áhrifum afrískrar popptónlistar.

Logi, sem flutti til Íslands fyrir 25 árum ásamt fjölskyldu sinni, á ættir að rekja jafnt til Íslands sem og Angóla og fagnar afrísk-norræna uppruna sínum á plötunni í músík og myndum. Platan er að sögn Loga bragðarefur íslenskrar og afrískrar menningar og snertir jafnt á íslenskri dægurmenningu sem og á afrískum uppruna hans.

Logi sá sjálfur um upptökustjórn, en naut liðsinnis Magnús Jóhanns Ragnarssonar og Arnars Inga Ingasonar við lögin Móðir og Mann setur hljóðan. Sæþór Kristjánsson sá um hljóðblöndun. Platan er gefin út af Les Freres Stefson og dreift af Sony Music Denmark.

Undir bláu tungli er plata vikunnar á Rás 2 að þessu sinni og verður send út í heild sinni ásamt kynningum Loga Pedro eftir 10 Fréttir í kvöld. Auk þess er Plata vikunnar alltaf aðgengileg hér á RÚV.is.

Logi Pedro - Undir bláu tungli