Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Herforingjar í Malí vilja að herforingjastjórn taki við

24.08.2020 - 00:27
epa08618766 Colonel Assimi Goita president of the National Committee for the Salvation of the People (CNSP) during a meeting with a delegation from the Economic Community of West African States (ECOWAS) in Bamako, Mali 22 August 2020. A delegation of West African leaders led by former Nigerian president Goodluck Jonathan arrived in Bamako to help negotiations in the wake of the coup. Mali President Ibrahim Boubakar Keita resigned 19 August 2020 after a coup by the military on 18 August 2020 with the National Committee for the Salvation of the People (CNSP) now in control.  EPA-EFE/H.DIAKITE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Herforingjarnir sem tóku völdin í Malí í síðustu viku hafa boðist til að láta Ibrahim Boubacar Keita forseta lausan. Þeir gera kröfu um að bráðabirgðastjórn hersins sitji í þrjú ár.

Tilgangur nýrrar ríkisstjórnar væri að endurskoða grundvallarskipan stjórnmála landsins. Herforingjarnir vilja að forseti landsins komi úr röðum hersins.

Þetta hefur AFP fréttastofan eftir fulltrúa úr sendinefnd Samtaka Vestur-Afríkuríkja sem nú er stödd í Bamako höfuðborg Malí. Talsmaður herforingjastjórnarinnar staðfestir þetta.

Krafa er jafnframt uppi um að ríkisstjórn landsins verði að mestum hluta skipuð fulltrúum hersins. Ef orðið verður við þessum kröfum verður forsetinn látinn laus og Boubou Cisse forsætisráðherra fluttur í öruggt skjól í Bamako.

Valdaránið í síðustu viku kom í kjölfar langrar hrinu mótmæla þar sem afsagnar Keita var krafist. Efnahagur ríkisins stendur á brauðfótum og herskáir múslímar hafa framið þar grimmdarverk. Íbúum nágrannaríkjanna Níger og Búrkína Fasó stendur jafnframt ógn af þeim.

Valdaráninu hefur verið mótmælt víða um heim en þúsundir fögnuðu því á götum Bamako. Nágrannaríki Malí hafa kallað eftir að Keita snúi aftur til valda og reglu komið á að nýju.

Herstjórnin kveðst hins vegar hafa lokið því sem mótmælendur kölluðu eftir og hefur lofað kosningum innan „skynsamlegra tímamarka”.