Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Gleði í LBHÍ þrátt fyrir aukið álag vegna COVID-19

24.08.2020 - 09:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Elsa María Guðlaugs Drífudót
Nemendum fjölgar mikið í Landbúnaðarháskólanum á þessu skólaári, allra mest í landslagsarkitektúr. Rektor skólans segir mikið hafa mætt á við að uppfylla sóttvarnakröfur, gleði ríki engu að síður í skólanum.

Mest fjölgar nemendum í landslagsarkitektúr, þar sem fjöldi umsókna jókst um 240 prósent á milli ára. Alla jafna er fjölgun á brautum 40-50 prósent.

Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor LBHÍ, segir að vísa hafi þurft frá í búfræði. Það sé þó ekki í fyrsta skiptið.

„En við erum samt að taka inn fleiri núna í búfræði heldur en við höfum gert og ætlum að reyna að taka enn fleiri á næsta ári. það hefur verið ósk frá ungum bændum að við tökum fleiri inn í búfræði. Það er í raun og veru verklegi hluti kennslunnar sem er helsti flöskuhálsinn,“ segir hún.

Aukið álag vegna COVID-19

Skólanum hefur verið skipt í sóttvarnahólf og eins metra reglan höfð í hávegum líkt og í öðrum skólum. Ragnheiður segir að mikið hafi mætt á starfsfólki skólans síðustu vikur.

„En núna erum við að taka á móti nýjum nemendum sem við þurfum að sinna vel og koma inn í kerfin og slík. Þannig við erum að leggja sérstaklega áherslu á það eins og aðrir skólar.“

Aðspurð segir hún að gleði ríki í skólanum þrátt fyrir aukið álag vegna COVID-19.

Hér er bara bros á vöru og virkilega gefandi að taka á móti þessum stóru hópum okkar hérna. Það er bara umtalað að þó að starfsfólk sé þreytt og vinni hér fram á nætur þá eru allir svo glaðir. Allir bara meðvitaðir um ástandið og tilbúnir að gera þetta sem best saman.“