Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Funda um breytingar á sýrlensku stjórnarskránni

24.08.2020 - 16:13
epa08616106 Geir O. Pedersen, UN Special Envoy for Syria, speaks to the media regarding a new round of meeting of the Syrian Constitutional Committee, during a press conference at the European headquarters of the United Nations in Geneva, Switzerland, 21 August 2020.  EPA-EFE/SALVATORE DI NOLFI
Geir O. Pedersen, sérlegur erindreki Sameinuðu þjóðanna í málefnum Sýrlands. Mynd: EPA
Fulltrúar Sameinuðu þjóðanna, sýrlenskra stjórnvalda, stjórnarandstæðinga og almennings í Sýrlandi sitja á fundum alla þessa viku og ræða um mögulegar breytingar á stjórnarskrá landsins. Talið er að sátt um ákveðnar breytingar geti orðið mikilvægt skref í átt til friðar í landinu. Þar hefur geisað stríð síðan árið 2011. 380.000 manns hafa fallið, samkvæmt opinberum tölum og yfir 11 milljónir Sýrlendinga hafa neyðst til að leggja á flótta.

Viðræðulotan hófst í dag í húsakynnum Sameinuðu þjóðanna í Genf í Sviss. Þangað mættu sendinefnd ríkisstjórnar Bashar al-Assads, forseta, sendinefnd stjórnarandstöðunnar og sendinefnd fulltrúa almennings. Fulltrúarnir funduðu síðast í nóvember en fresta hefur þurft næstu fundum vegna kórónuveirufaraldursins. 

Norðmaðurinn Geir O. Pedersen, sérlegur erindreki Sameinuðu þjóðanna í málefnum Sýrlands, leiðir viðræðurnar. Hann segir í færslu á Twitter að hann hlakki til fundalotunnar í vikunni og að eiga innihaldsríkar viðræður sem séu á dagskránni og komast skrefi lengra í ferlinu. 

Stjórnarskrárbreytingarnar eru hluti af áætlun Sameinuðu þjóðanna til að tryggja frið í Sýrlandi. Pedersen sagði við fréttamenn á föstudag að enginn búist við kraftaverki, fundirnir snúist frekar um að finna sameiginlega fleti í friðarátt.