Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Enginn ráðherranna með COVID

Ríkisstjórn fundar á Suðurlandi
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitastjórnarráðherra. Ríkisstjórnin fundaði á Suðurlandi á þriðjudag.  Mynd: RÚV
Niðurstöður úr síðari skimun ráðherra vegna kórunuveiru reyndust neikvæðar í öllum tilfellum. Þetta kemur fram í tilkynningu sem forsætisráðuneytið sendi frá sér á tólfta tímanum í kvöld.

Allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar, að þeim Ásmundi Einari Daðasyni og Svandísi Svavarsdóttur undanskildum, voru látnir gangast undir tvær sýnatökur með smitgát á milli eftir að hafa snætt kvöldverð á Hótel Rangá síðastliðinn þriðjudag. All nokkur smit hafa verið rakin til hótelsins. Ráðherrarnir töldust til ytri hrings hins mögulega smithóps og fóru þeir í fyrri skimunina á föstudag og reyndust þau öll neikvæð.

Ráðherrarnir fóru í sýnatöku í morgun og var Alma Möller landlæknir spurð að því á upplýsingafundi dagsins hvenær von væri á niðurstöðum og sagði hún þá von á upplýsingunum síðdegis í dag.

Niðurstöðurnar lágu hins vegar ekki fyrir fyrr en í kvöld og reyndust ráðherrarnir allir neikvæðir. Það gerðu líka þrír starfsmenn stjórnarráðsins sem fylgdu ríkisstjórninni.