Endurnýja ræsi og búa til nýja stíga í sjálfboðavinnu

24.08.2020 - 15:59
Erlendir sjálfboðaliðar á vegum Umhverfisstofnunar hafa unnið að náttúruvernd víðs vegar um landið í sumar. Tvísýnt var hvort þeir kæmust til landsins vegna COVID-19.

Á hverju sumri fara sjálfboðaliðar Umhverfisstofnunar á milli staða og leggja landvörðum lið. Hópurinn í ár er nú brátt á förum. Þórhildur María Kristinsdóttir, svæðislandvörður á Vesturlandi segir að verkefni sjálfboðaliðanna hafi verið af ýmsum toga.  

„Það er að laga göngustíga, endurnýja ræsi, búa til nýja stíga, loka villustígum. Laga merkingar og stikur. Það er eiginlega bara allt milli himins og hafs.“

Koma aftur og aftur til landsins

Margir koma sem sjálfboðaliðar ár eftir ár. Joanne Evans er frá Englandi og er nú á Íslandi sjöunda sumarið í röð.

„Það er mjög rólegt hérna og allt mjög friðsælt. Fólkið á Íslandi er afslappað og lætur gang mála ekki stressa sig. Það gefur mér mikinn frið og ég kem aftur á hverju ári,“ segir hún.

Þórhildur segir vinnu sjálfboðaliðana á náttúruverndarsvæðum mikilvæga, enda sinni þeir verkum sem yrðu annars ekki unnin.

„Fyrir mig, til dæmis, þá starfa ég ein á þessu svæði og ég er með þó nokkuð mörg svæði sem ég hugsa um. Það hjálpar mér rosalega mikið að fá hóp af fólki eins og sjálfboðaliðana við að hjálpa mér þessi verkefni eins og að laga staura og ræsi. Því það er margt sem ég ræð ekki við að gera ein, það er ekki möguleiki.“

Komust að endingu, þrátt fyrir COVID

Á tíma var útlit fyrir að sjálfboðaliðarnir kæmust ekki til landsins í ár vegna COVID-19 en komu þegar sýnataka var tekin upp á landamærunum 15. júní.

„Ég hafði áhyggjur af því að ég yrði til þess að ástandið á Íslandi versnaði aftur. En svo vorum við öll skimuð við landamæri og skipuleggjendur starfsins hafa verið strangir um hvað við megum og megum ekki gera, sem hjálpar líka mikið,“ segir Kerry Lemon sem kemur frá Skotlandi.

Þá gefur það auga leið að faraldurinn flæki starfið.

„Á hverju ári breytir veðrið á Íslandi áformum fyrirvaralaust. Að COVID skyldi bætast ofan á veðurfarið á þessu ári gerði stjórnendum sjálfboðastarfsins mjög erfitt fyrir. En allir hafa brugðist mjög vel við þessu,“ segir Evans.  

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi