Nú ber fólki skylda að bera andlitsgrímur almannafæri í Seoul, höfuðborg Suður-Kóreu.
Að sögn Reuters-fréttastofunnar á þetta við jafnt innan- sem utandyra en útbreiðsla kórónuveirunnar hefur verið mjög mikil þar í landi undanfarið.
Eingöngu er leyfilegt að taka grímurnar niður meðan etið er eða drukkið. Í maí síðastliðnum var sett kvöð um grímunotkun í almenningsfarartækjum og leigubílum í borginni.
Yfirvöld telja nú að enn þurfi að herða reglur um samgang milli fólks. Í gær, sunnudag greindust 266 ný kórónuveirutilfelli í Suður-Kóreu en á laugardag voru þau 397.
Næturklúbbum í landinu hefur verið gert að loka, eins mega veitingastaðir ekki bjóða upp á hlaðborð og netkaffihúsum hefur verið lokað. Það sama á við um kirkjur í landinu.
Vegna hinnar miklu fjölgunar tilfella munu stjórnvöld í Suður-Kóreu nú vera að íhuga að herða enn á reglum með því að fyrirskipa lokun skóla og ýmissa fyrirtækja.