Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Álframleiðandi þarf að biðja frumbyggja afsökunar

24.08.2020 - 03:48
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Framkvæmdastjóri Rio Tinto, eins stærsta álframleiðanda heims, Jean-Sebastien Jacques verður af 3,5 milljóna Bandaríkjadala bónusgreiðslu. Svipað á við um aðra háttsetta starfsmenn fyrirtækisins.

Ástæðan er eyðilegging á elstu þekktu fornleifaummerkjum um líf frumbyggja í Ástralíu í maí síðastliðnum. Fyrirtækið hafði fengið leyfi til að sprengja í Juukan-gljúfri í Pilbarahéraði í þeim tilgangi að stækka járngrýtisnámu þess. Héraðið er í vesturhluta Ástralíu, víðáttumikið og mjög strjálbýlt. 

Stjórn Rio Tinto komst að þeirri niðurstöðu í kjölfar rannsóknar á málinu að þrátt fyrir að opinbert leyfi hefði fengist hefði með framkvæmdinni verið brotið gegn siðareglum og innri viðmiðum fyrirtækisins. Ákvörðunin var þó lengi varin með leyfinu.

Leiðtogar frumbyggja á svæðinu mótmæltu framkvæmdinni hástöfum. Þau kveðast ekki hafa verið upplýst um fyrirætlanir Rio Tinto um að sprengja fyrr en það var orðið um seinan. Að lokum ákvað stjórn fyrirtækisins að biðjast formlega afsökunar á athæfi sínu.

Nú segjast forsvarsmenn Rio Tinto ætla að kappkosta að sagan endurtaki sig ekki. Menningarlegt mikilvægi Juukan-gljúfurs var staðfest skömmu eftir að leyfið fékkst.

Þá fundust við fornleifauppgröft verkfæri gerð úr kengúrubeini sem talin eru 28.000 ára gömul auk hárfléttu úr manni. DNA-rannsókn leiddi í ljós náinn skyldleika við núlifandi frumbyggja Ástralíu.

Yfirvöld í vesturhluta Ástralíu vinna nú að endurskoðun laga um námuvinnslu nærri söguslóðum frumbyggja.