Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Áhersla á að bæta innviði í garðyrkju í LBHÍ

24.08.2020 - 13:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Rektor Landbúnaðarháskólans segir áætlanir um nýtt garðyrkjunám á Íslandi jákvæðar. Margt sé hægt að gera betur í garðyrkjunáminu í LBHÍ.

Fagfólk í garðyrkju stofnaði nýlega félag um Garðyrkjuskóla Íslands með áætlanir um að setja á fót nám í garðyrkju á framhaldsskólastigi. Það yrði sambærilegt námi sem býðst í Ljósmyndaskóla íslands og Kvikmyndaskólanum.

Landbúnaðarháskóli Íslands er í dag eina menntastofnun landsins sem býður upp á nám í garðyrkjufræðum. Rangheiður Inga Þórarinsdóttir rektor fagnar stofnun félagsins og segir jákvætt að atvinnulífið vilji koma að því að efla nám á þessu sviði.

„Ég held það séu alveg gríðarleg tækifæri í garðyrkju á Íslandi. Mín sýn er það persónulega að garðyrkja mun þróast mjög hratt á næstu fimm til tíu árum.“

Tækifæri til bóta í garðyrkju hjá Landbúnaðarháskólanum

Einn stjórnarmanna hins nýja félags sagði í samtali við RÚV að garðyrkjunámi við LBHÍ væri ábótavant og ekki í nægum tengslum við atvinnulífið. Ragnheiður segir stefnt að því að bæta innviði.

„Ég held það sé hægt að þróa námið áfram hjá okkur. Það er náttúrulega heilmikið sem við getum ert betur varðandi það til dæmis að leggja meiri áherslu á stjórnun og rekstur og slíka hluti og eins varðandi tækninýjungar. Það hefur lítið kannski gerst varðandi innviðina í garðyrkjunáminu hjá okkur í langan tíma, þannig við erum að leggja áherslu á það,“ segir hún.

Ragnheiður segist búast við því að samtal verði á milli skólanna tveggja, þegar og ef nýi skólinn verður stofnaður. Allir verði að leggjast á eitt við að efla jafn mikilvæga grein og garðyrkjan er.