Aðgerðirnar á landamærunum í þágu almannahags

Katrín Jakobsdóttir á upplýsingafundi 14.08.20
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Hertar takmarkanir við landamærin stuðla að því að innlandshagkerfið verði fyrir sem minnstu hnjaski. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Í greininni bendir Katrín á að í öðrum ríkjum hafi harðari sóttvarnaraðgerðir ekki endilega skilað sér í meiri samdrætti. Þá fagnar hún gagnrýninni umræðu um borgaraleg réttindi í ljósi hertra aðgerða.

Í greininni ræðir Katrín um ákvörðun stjórnvalda um að herða takmarkanir á landamærunum með tvöfaldri skimun og fjögurra til fimm daga sóttkví við komuna hingað til lands. Ákvörðunin, sem var kynnt fyrir rúmri viku, hefur vakið talsvert umtal.

Katrín segir að í aðdraganda ákvörðunarinnar hafi ríkisstjórnin látið vinna hagræna greiningu á stöðunni og niðurstaða hennar hafi meðal annars verið sú að hagræn rök hnigi að því að herða aðgerðir á landamærunum til þess að vernda innanlandshagkerfið fyrir raski af völdum of harðra sóttvarnarráðstafana. Í matinu kemur einnig fram að aðrir þættir hafi áhrif á fjölda ferðamanna, svo sem ferðatakmarkanir annarra ríkja og almennur ferðavilji.

Þá bendir Katrín á að dæmi annars staðar frá sýni að harðar sóttvarnarráðstafanir skili ekki sjálfkrafa meiri samdrætti. Hún tekur sem dæmi að samdráttur í Svíþjóð er meiri á öðrum ársfjórðungi þessa árs en í Danmörku og Finnlandi, þrátt fyrir að meiri hömlur hafi verið í hinum síðarnefndu. 

Katrín fagnar gagnrýninni umræðu um sóttvarnaraðgerðir. Hún bendir á að áhrif kórónuveirunnar á frelsi manna séu víðtæk og endurspeglist ekki einungis í hertum aðgerðum á landamærum, heldur einnig takmörkunum á skólastarfi, íþrótta- og menningarstarfi, hjúkrunarheimilum og hömlum á atvinnuréttindum.

„Sóttvarnarráðstafanir hafa áhrif á margs konar réttindi, um það er ekki deilt. Mat ríkisstjórnarinnar var hins vegar að fimm daga ferðatími yfir landamærin væri vægari skerðing réttinda en ýmsar þær hömlur sem gripið var til í vor og yfirvofandi eru ef okkur mistekst að halda veirunni í skefjum,“ segir í greininni. 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi