Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sjötti titill Bayern eða sá fyrsti hjá PSG?

epa08613584 Robert Lewandowski (C) of Bayern Munich celebrates after scoring the 3-0 lead during the UEFA Champions League semi final soccer match between Olympique Lyon and Bayern Munich in Lisbon, Portugal, 19 August 2020.  EPA-EFE/JOSE SENA GOULAO
 Mynd: EPA-EFE - LUSA

Sjötti titill Bayern eða sá fyrsti hjá PSG?

23.08.2020 - 12:45
Þýskalandsmeistarar Bayern München og Frakklandsmeistarar Paris Saint-Germain mætast í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu á Leikvangi ljóssins í Lissabon klukkan 19:00 í kvöld. Þeir þýsku geta unnið keppnina í sjötta sinn en Parísarliðið sækist eftir sínum fyrsta titli.

PSG hafði tryggt sæti sitt í 8-liða úrslitum í mars áður en kom að hraðmótinu sem hefur farið fram í Portúgal síðustu vikur. Atalanta frá Ítalíu beið þeirra í 8-liða úrslitum. Þar var PSG 1-0 undir fram á 90. mínútu þegar Brasilíski varnarmaðurinn Marquinhos skoraði jöfnunarmark og aðeins tveimur mínútum síðar skaut varamaðurinn Eric Maxim Choupo-Moting dramatískt sigurmark. Liðið vann þá 3-0 sigur á RB Leipzig í undanúrslitum á þriðjudag þar sem Argentínumaðurinn Ángel Di María skoraði eitt markanna þriggja og lagði upp hin tvö fyrir varnarmennina Marquinhos og Juan Bernat.

Flestra augu í kvöld verða þó eflaust á Neymar og Kylian Mbappé sem geta með hraða sínum ógnað hárri varnarlínu Bayern München. Bæjarar hafa virkað sem vel smurð vél í leikjunum í keppninni síðustu vikur. 4-1 sigur á Chelsea í upphafi mánaðar þýddi samanlagður 7-1 sigur í einvígi liðanna í 16-liða úrslitum.

Spænska stórveldið Barcelona var niðurlægt 8-2 í 8-liða úrslitum fyrir þægilegan 3-0 sigur á Lyon frá Frakklandi í undanúrslitunum. Robert Lewandowski hefur farið fyrir öflugum sóknarleik liðsins með 15 mörkum í aðeins níu leikjum í keppninni.

Bayern er í úrslitum keppninnar í ellefta sinn og getur unnið hana í sjötta skipti með sigri í kvöld. Paris Saint-Germain er aftur á móti í úrslitum keppninnar í fyrsta sinn og sækist eftir fyrsta Meistaradeildartitli sínum. Leikur liðanna hefst klukkan 19:00.