Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Reyna að lengja opnun frístunda - áfall fyrir foreldra

23.08.2020 - 12:21
Mynd með færslu
Íslenskutími hjá 8. bekk í Hrafnagilsskóla Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Starfsmenn í þremur grunnskólum í Reykjavík hafa greinst með COVID-19 og skólasetningu verið frestað um tvær vikur. Borgin ætlar að reyna að auka þjónustu frístundaheimila, en foreldri segir fólk í misjafnri aðstöðu til að bregðast við.

Smitin greindust hjá starfsmönnum Hvassaleitisskóla, Álftamýrarskóla og Barnaskóla Hjallastefnunar í Reykjavík. Á annað hundrað starfsmenn skólanna eru í sóttkví. Skólasetningu Álftamýrarskóla hefur verið frestað til 7. september og til 2. september í Hvassaleitisskóla, en Barnaskólinn var settur á föstudag. Foreldrar bíða eftir frekari upplýsingum eftir tölvupóst sem barst þeim.

„Þetta var náttúrulega bara mikið sjokk að fá þessar fréttir í gær og ég held að fólk sé bara á fullu núna að sjá fyrir sér hvernig það getur dekkað næstu tvær vikur, til viðbótar við það sem er búið að vera – sumarfrí og annað,“ segir Bylgja Björnsdóttir, formaður foreldrafélags sameinaðs Álftamýrar- og Hvassaleitisskóla áður en þeim var skipt aftur upp í vor. 

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur, segir kennara fara í skólana á morgun til að ná í námsgögn svo hægt sé að koma fjarkennslu af stað.

„Þetta er eitthvað sem við álítum að geti verið viðbúið allt þetta skólaár. Það komi sýking í einhvern skóla og þurfi að loka tímabundið. Auðvitað er þetta lang erfiðast fyrir myndi ég segja yngstu börnin, til dæmis fyrstu bekkingarnir sem hafa ekki einu sinni hitt kennarann sinn,“ segir Helgi.

Gera hvað hægt er varðandi frístund

Foreldrar bíða svara hvort möguleiki sé á lengri opnun frístundaheimila til þess að brúa bilið og Bylgja segir það geta skipt miklu máli.

„Að fá einhverja gæslu fyrir börnin að þá er ég alveg handviss um að fólk væri mjög þakklátt fyrir það. En við þurfum bara að bíða til þess að vita meira,“ segir Bylgja.

Helgi segir að borgin ætli að reyna að auka þjónustu í frístund, en fram kom í fréttum í gær að afar illa gengur að ráða fólk til starfa. Fyrsti bekkur verður í forgangi fyrir aukna gæslu. 

„Nú ef okkur tekst meira þá mundum við þá auka við það, en það þýðir þá svona skyndimönnun, því starfsfólk frístundaheimila er almennt bara í hálfu starfi, þannig þetta verður svona púsl hjá okkur en við ætlum að gera hvað við getum,“ segir Helgi.

En það er þá ljóst að þessi staða verður erfið fyrir foreldra?

„Jájá, og það er eins og menn vita að þetta getur gert alls staðar og sett fjölskyldur tímabundið í vanda,“ segir Helgi.