Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ísraelar mótmæla kynferðisofbeldi

23.08.2020 - 20:27
Israelis gather at Rabin Square during a rally against the government of Israeli Prime Minister Benjamin Netanyahu, in Tel Aviv, Saturday, March 7, 2015. Israel will hold legislative elections on  March 17, 2015. (AP Photo/Ariel Schalit)
 Mynd: AP
Mörg þúsund Ísraelar mótmæltu kynferðisofbeldi í garð kvenna með klukkustundar vinnustöðvun í hádeginu í dag. Í síðustu viku var greint frá því að fyrr í ágúst hefði hópur manna nauðgað táningsstúlku í ísrölsku borginni Eilat.

Að minnsta kosti 30 samtök og fyrirtæki komu að skipulagningu vinnustöðvunarinnar. AFP fréttastofan hefur eftir talsmanni kvennasamtakanna Bonot Alternative að mótmælendur krefðust þess að stjórnvöld þyngdu refsingar yfir ofbeldismönnum. 

Í kvöld voru svo haldnar kröfugöngur út um allt land og þúsundir komu saman á stærstu samkomunni á Rabin-torginu í Tel Aviv. Að beiðni skipuleggjenda klæddust mótmælendur rauðum fötum.

Rannsókn lögreglu á hópnauðguninni stendur enn yfir en ellefu hafa verið handteknir. Umfjöllun um ofbeldið vakti mikla reiði meðal Ísraela og forsætisráðherrann Netanyahu hefur fordæmt nauðgunina. Hann lýsti því yfir að verknaðurinn væri „ekki einungis brot gegn stúlkunni heldur gegn mannkyninu öllu“.