Eyjakonur á siglingu

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Eyjakonur á siglingu

23.08.2020 - 17:55
ÍBV vann 1-0 sigur á Þór/KA í eina leik dagsins í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta. Eftir strembna byrjun hafa Eyjakonur skotist upp töfluna.

ÍBV var fyrir leik dagsins með 13 stig í fjórða sæti deildarinnar, þremur á eftir Fylki sem var sæti ofar. Þór/KA var með ellefu stig í fimmta sætinu og gat liðið því stokkið upp fyrir ÍBV með sigri.

Markalaust var eftir nokkuð fjörugan síðari hálfleik og í raun óvænt að hvorugt liðanna hefði tekist að setja mark sitt á leikinn. Raunar kom ekki mark fyrr en tæplega sex mínútur lifðu leiks þegar lettneska landsliðskonan Karlina Miksone skallaði inn hornspyrnu löndu sinnar Olgu Sevcovu. Það reyndist eina mark leiksins og 1-0 sigur ÍBV því úrslit leiksins.

ÍBV hefur nú fengið 13 stig af 15 mögulegum í síðustu fimm leikjum eftir að hafa fengið aðeins þrjú stig í fyrstu fimm leikjum sínum í deildinni. Liðið er með 16 stig eftir tíu leiki í fjórða sætinu, fyrir neðan Fylki sem er í því þriðja vegna markatölu. Þór/KA er sem fyrr í fimmta sætinu með ellefu stig.

Fylkiskonur áttu að mæta KR á morgun en þeim leik var frestað þar sem Vesturbæjarkonur eru í sóttkví eftir að smit kom upp í þjálfarateymi liðsins. FH mætir hins vegar Stjörnunni á morgun klukkan 18:00 og klukkan 19:15 er leikur Vals og Þróttar Reykjavíkur.