Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Brúðkaup og kirkjustarf í skugga COVID

23.08.2020 - 19:47
Mynd: Bragi / RÚV
Sóttvarnareglur setja mark sitt á allt kirkjustarf. Sóknarprestur við Dómkirkjuna segir þær hafa mest áhrif á útfarir og brúðkaup. Skírnir hafi lítið breyst og fermingarbörnin hafa tekið ástandinu af æðruleysi þótt veislunum hafi jafnvel verið frestað nokkrum sinnum.

Stefán Erlendsson og Anna María Steindórsdóttir höfðu fyrir nokkru ákveðið að gifta sig og halda 100 manna veislu. Hertar sóttvarnarreglur komu í vef fyrir að af stórri veislu gæti orðið en þau ákváðu að halda deginum og aðlaga brúðkaupið að gildandi sóttvarnareglum. Þau giftu sig heima í garðinum með sínum allra nánustu. Þau stóðu þétt saman en  hinir deifðu úr sér í garðinum við hæfilegum COVID- fjarlægðarmörkum.

Sveinn Valgeirsson, sóknarprestur í Dómkirkjunni segir COVID hafa sett mark sitt á allt kirkjustarf og athafnir. Hvernig ástandið biti á útförum sé erfiðast. Syrgjendur sem missa ástvini eigi erfitt með að takmarka fjölda þeirra sem mega vera viðstaddir. 

„Það er vandinn. Sumir hafa bara þann háttinn á að segja bara hverjir mega koma og hverjir ekki og hinir verða þá bara að horfa á í tölvunni. Gjarnan er þessu streymt. Þetta er erfitt. Langoftast er þetta töluvert erfitt. Og þetta er aukaálag ofan á allt annað sem á dynur.“

Fermingarbörn vorsins þurftu að sætta sig við að veislum þeirra var frestað og þeim hefur svo jafnvel verið frestað aftur vegna seinni bylgjunnar.

„Þau eru býsna æðrulaus í þessu finnst mér. Þeim náttúrulega finnst þetta ekki eins skemmtilegt en þetta er bara staðan sem við búum við og þau aðlagast alveg furðulega vel.“

Faraldurinn hefur haft minnst áhrif á skírnarathafnir sem alla jafna eru fámennar hvort eð er.

„Þær eru þó yfirleitt fámennari núna heldur en verið hefur en við bara finnum út úr þessu, það er ekkert annað að gera.“

Sveinn segir að mörgum hjónavígslum hafi verið frestað, aðrir hafi fækkað gestum sem geta verið viðstaddir.

„Og kannski er það lýsandi dæmi að sá sem átti að vera svaramaður hér í dag, hann er kominn í rannsóknarsóttkví. Það er verið að kanna hvort hann sé með COVID eða ekki. Það er auðvitað hundfúlt að þurfa að breyta einum stærsta degi lífsins með þessum hætti. Ég skil það alveg en svo er alltaf hægt að vega og meta. Eigum við að bíða með þetta eða eigum við að láta slag standa og hafa góða veislu seinna? Það er alveg möguleiki líka að athöfnin og löggjörningurinn fari strax fram en síðan ef menn vilja gleðjast með vinum og ættingjum þegar þetta er allt yfirstaðið að þá er það náttúrulega hægt.“

Er þetta þá ekki kannski bara ágætis prófsteinn á parasambönd?

„Jú, og þetta kannski dregur fram kjarnann, að það sem skiptir máli gerist hér og veislan og fögnuðurinn með aðstandendum og vinum hann getur komið seinna.“

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV