Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bayern München Evrópumeistari í sjötta sinn

epa08620915 Munich's goalkeeper Manuel Neuer (C) lifts the trophy as his teammates celebrate after winning the UEFA Champions League final between Paris Saint-Germain and Bayern Munich in Lisbon, Portugal, 23 August 2020. Bayern Munich won 1-0.  EPA-EFE/Matt Childs / POOL
 Mynd: EPA-EFE - REUTERS POOL

Bayern München Evrópumeistari í sjötta sinn

23.08.2020 - 21:00
Bayern München vann 1-0 sigur á Paris Saint-Germain í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í Lissabon í kvöld. Bayern fagnar því þrennu í ár þar sem félagið vann bæði þýsku deildina og bikarinn áður en það tryggði sér Evrópusigurinn í kvöld.

Leikurinn fór nokkuð rólega af stað þar sem liðin þreifuðu fyrir sér. Bayern München var töluvert meira með boltann en Parísarliðið ógnaði með skyndisóknum og uppskar fín færi. Robert Lewandowski, framherji Bæjara, átti skot í stöng um miðjan hálfleikinn og þá fékk Ángel Di María hörkufæri hinu megin á vellinum skömmu síðar eftir eina af skyndisóknum PSG en skot Argentínumannsins fór yfir markið.

Kylian Mbappé, framherji PSG, fékk besta færi hálfleiksins á lokamínútu hans eftir góðan samleik við Ander Herrera. Skot Mbappé úr vítateignum var þó laust og beint á Manuel Neuer í marki Bayern. Bæjarinn Kingsley Coman átti nokkuð sterkt tilkall til að fá vítaspyrnu í uppbótartíma fyrri hálfleiks eftir samskipti sín við Thilo Kehrer innan teigs PSG en fékk þó ekki. Markalaust var því í leikhléinu.

Coman hetjan gegn uppeldisfélaginu

Líkt og fyrri hálfleikurinn þá fór sá síðari nokkuð hægt af stað. Bayern var meira með boltann en gekk erfiðlega að skapa sér færi, rétt eins og PSG sem sótti hratt. Þegar tæpur stundarfjórðungur var liðinn af hálfleiknum dró hins vegar til tíðinda. Joshua Kimmich átti þá fyrirgjöf frá hægri, yfir alla varnarmenn PSG, beint á kollinn á Kingsley Coman sem var einn og óvaldaður á fjærstönginni. Coman, sem er uppalinn hjá Parísarliðinu, átti ekki í vandræðum með að skalla boltann í netið og koma Bayern þannig í 1-0 forystu.

Þeir frönsku reyndu hvað þeir gátu að jafna en gekk bölvanlega að komast í gegnum múr Bayern sem pressuðu þá frönsku út um allan völl. Hvorugt liðanna náði í raun miklum spilköflum í sinn leik og stoppuðu þeir kaflar gjarnan vegna leikbrota. Leikurinn var því ekki mikið fyrir augað þar sem fátt var um fína drætti á lokakaflanum. Eric Maxim Choupo-Moting komst næst því að skora þegar honum mistókst að koma tá í sendingu Neymars í uppbótartíma. Þar fór síðasti séns Parísarmanna. Lið Bayern hafði forystuna, hélt henni allt til loka og vann leikinn 1-0.

Önnur þrennan í sögu félagsins

Bayern München er því Meistaradeildarmeistari í ár. Þýska félagið vann alla ellefu leiki sína í keppninni í ár sem er jafnframt lengsta sigurhrina liðs í keppninni frá upphafi.

Bayern fagnar þá þrennu í ár þar sem bæði deildar- og bikartitill voru í húsi fyrir. Það verður að kallast frábær árangur hjá Hans-Dieter Flick sem tók við liðinu af Niko Kovac í nóvember síðast liðnum. Þetta er í annað sinn í sögu félagsins sem sá árangur næst en fyrra skiptið var undir stjórn Jupp Heynckes tímabilið 2012-13.

Með titlinum er Bayern München þriðja sigursælasta liðið í sögu Meistaradeildarinnar ásamt Liverpool með sex titla, en Liverpool vann sinn sjötta síðasta sumar. Aðeins Real Madrid, með 13 titla, og AC Milan með sjö hafa unnið fleiri.

epa08620898 Headcoach Hansi Flick (L) and David Alaba (R)  of Bayern react with Neymar of PSG after the UEFA Champions League final between Paris Saint-Germain and Bayern Munich in Lisbon, Portugal, 23 August 2020.  EPA-EFE/Miguel A. Lopes / POOL
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
epa08620886 Thomas Mueller (front) of Munich and teammates celebrate after winning the UEFA Champions League final between Paris Saint-Germain and Bayern Munich in Lisbon, Portugal, 23 August 2020. Bayern Munich won 1-0.  EPA-EFE/Matt Childs / POOL
 Mynd: EPA-EFE - REUTERS POOL
epa08620875 Players of Bayern celebrate after winning the UEFA Champions League final between Paris Saint-Germain and Bayern Munich in Lisbon, Portugal, 23 August 2020.  EPA-EFE/Manu Fernandez / POOL
 Mynd: EPA-EFE - AP POOL