Áhyggjuefni að ekki sé búið að rekja smitið á Hlíf

23.08.2020 - 13:56
Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV
Ekki hefur tekist að rekja smitið sem greindist á Hlíf, íbúðum fyrir eldri borgara á Ísafirði, í gær. Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, segir að vegna þess að ekki hafi fengist heilleg mynd af því hvernig smitið barst þangað hafi margir verið sendir í sóttkví eða beðnir um að viðhafa smitgát. Þá hafi heimsóknir aðstandenda verið bannaðar.

Einn þeirra sem greindist smitaður af COVID-19 í gær er íbúi á Hlíf. Hann er á áttræðisaldri og var ekki í sóttkví þegar hann greindist. 19 íbúar á Hlíf hafa verið settir í tveggja vikna sóttkví og 54 aðrir hafa verið hvattir til að halda kyrru fyrir, viðhafa smitgát og fylgjast með mögulegum einkennum. 

Íbúðirnar eru ekki á vegum Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða en hluti íbúa þiggur heimaþjónustu þaðan. Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, segir að sá smitaði sé heima hjá sér. Hann segir það áhyggjuefni að ekki hafi tekist að rekja smitið. „Og það er það sem vekur með okkur ugg, ekki bara að þetta skuli vera íbúi á þessum aldri sem býr innan um aðra íbúa á svipuðum aldri, heldur líka að það er ekki búið að rekja þetta almennilega og búa til heillegan söguþráð svo það sé hægt að setja fleiri í sóttkví og skimun,“ segir Gylfi.

Því hafi verið ákveðið að grípa til fremur harðra ráðstafana. „Í morgun var ákveðið að setja alla sem fóru í sóttkví í skimun og einnig tíu til viðbótar sem höfðu verið í samskiptum við þann smitaða til að reyna að rekja hvaðan smitið kemur,“ segir Gylfi. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi