„Það er uppskeruhátíð framundan í skotveiðibransanum“

22.08.2020 - 11:48
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Á meðan skotveiðimenn eru hvattir til hóflegra veiða á grágæs er talið óhætt að auka til muna veiði á heiðagæs. Gæsaveiðitíminn hófst í vikunni, en á fjórða þúsund manns stunda gæsaveiðar að jafnaði.

Veiðar á grágæs og heiðargæs eru heimilaðar frá 20. ágúst til 15. mars. Margar gæsaskyttur fóru því til veiða á fimmtudagsmorgun. 

Sólskin og logn ekki gott veður til gæsaveiða

Áki Ármann Jónsson, formaður Skotveiðifélags Íslands, fór þó ekki til veiða. „Nei ég gerði það nú reyndar ekki. Það viðraði mjög illa til veiða, sólskin og logn, ekki alveg eins og maður vill hafa það. Ég vil hafa smá vind og lágskýjað líka,“ segir hann. „Annars fer ég yfirleitt í byrjun september til veiða á gæsinni. Þá er hún bara orðin feitari og betri matur.“ En hann segir segir að margir fari alltaf til veiða á fyrsta degi. „Já, það er alltaf stemmning í kringum það. Maður sér það á samfélagsmiðlum skotveiðimanna að þeir hafa margir farið. Og veitt hóflega sýnist mér.“ 

Mynd með færslu
 Mynd:

Fyrstu talningar í Bretlandi benda til fækkunar á grágæs

Það eru einmitt tilmælin til gæsaveiðimanna sem ætla að skjóta grágæs í ár. Hún kemur hingað frá Bretlandi og talningar þar benda til þess að henni fari fækkandi. „Það gerðist reyndar líka í kringum árið 200 minnir mig. Þá kom í ljós að hún hafði fært sig til á Bretlandseyjum og fundið fleiri staði. Við endurtalningu fundust held ég 30-40 þúsund fleiri gæsir heldur en þeir voru að telja. Það er svipað sem þarf að gera núna. Það þarf bara að fara varlega í veiðarnar á meðan verið er að skoða málið betur.“ 

Heiðargæsinni fjölgað mikið síðustu ár

En þessu er öfugt farið með heiðagæs. Áki segir stofn hennar hafa vaxið gríðarlega síðustu ár og geti jafnvel gengið nærri viðkvæmum gróðri á hálendinu. „Hún hefur farið úr 200 þúsund fuglum fyrir 15-20 árum síðan, í vel yfir hálfa milljón.“ En hann segir mun algengara að menn skjóti grágæs. Hún sé aðgengilegri og mun auðveldari við að eiga en heiðargæsin. Auk þess sem það þurfi að fara upp á hálendið til að veiða heiðargæs. „Það eru, minnir mig, um 3000 veiðimenn sem fara á grágæs á hverju hausti, á meðan þetta eru nokkur hundruð á heiðargæsinni.“

Góður tími framundan í skotveiðinni

En hjá mörgum skotveiðimönnum er gæsaveiðin skemmtilegasta veiðin og Áki segir góðan tíma framundan. „Það má eiginlega segja að nú byrji jólin hjá skotveiðimönnum. Fyrst grágæsin og heiðargæsin. Síðan byrjar veiðin á hinum gæsategundunum, svo öndum og skörfum - sjófuglum. Þannig að það er uppskeruhátíð framundan í skotveiðibransanum.“

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi