Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Menningarnæturgleði heima í stofu

Menningarnæturgleði heima í stofu

22.08.2020 - 19:39

Höfundar

Á venjulegu ári hefði Menningarnótt farið fram með pompi og prakt í dag en vegna kórónuveirunnar var ákveðið að aflýsa hátíðinni. Það verður þó nóg um menningu og gleði á RÚV og Rás 2 í kvöld þar sem þéttpökkuð dagskrá er fram undan.

19:45 - Menningarnótt heima
Í samstarfi við Reykjavíkurborg sýnir RÚV sérstakan sjónvarpsþátt þar sem birt verða brot úr viðburðum sem áttu að vera á dagskrá Menningarnætur. Þátturinn er í umsjón Baldvins Þórs Bergssonar og Ragnhildar Steinunnar Jónsdóttur og hefst kl. 19:45. Púlsinn verður tekinn á listalífinu í borginni og leitast verður við það að færa menninguna heim í stofu. Borgarleikhúsið, Þjóðleikhúsið og Íslenski dansflokkurinn verða heimsótt og Helgi Björnsson tekur lagið, svo eitthvað sé nefnt. 

20:20 - Tónaflóð um landið - Reykjavík
Stórtónleikar Rásar 2, Tónaflóð á Arnarhóli, hafa jafnan verið meðal hápunkta Menningarnætur en í ár hefur Tónaflóð verið á ferð um landið og flutt tónlist hvers landshluta fyrir sig. Tónaflóðshringnum verður lokað þegar hljómsveitin Albatross, með Sverri Bergmann og Elísabetu Ormslev í fararbroddi, flytur lög tengd Höfuðborgarsvæðinu í beinni útsendingu á RÚV og Rás 2 úr Gamla bíó. Þeir sem koma fram með hljómsveitinni í kvöld eru Jóhanna Guðrún, Jón Jónsson, KK og Bríet. 

22:00 - Menningarnæturgleði
Að loknum Tónaflóðstónleikunum mun Albatross halda uppi stemmingu með menningarnæturdansleik sem ætti að fá alla til að dilla sér. Dansleikurinn verður í beinni útsendingu á RÚV og á Rás 2. 

Beina útsendingu RÚV má horfa á í spilaranum hér fyrir ofan.