Matvælastofnun hefur unnið tillögu að rekstrarleyfi fyrir Matorku ehf. vegna fiskeldis vestan Grindavíkur. Um er að ræða nýtt rekstrarleyfi fyrir landeldi, fyrir 6.000 tonna hámarkslífmassa vegna matfiskeldis á laxi, bleikju og regnbogasilungi.
Áður var fyrirtækið með rekstrarleyfi fyrir 3.000 tonna framleiðslu á laxi, bleikju, regnbogasilungi og borra. Matorka starfrækir fiskeldi í Húsatóftum í Grindavík, bæði í eldri stöð með 200 tonna leyfi og í nýrri stöð sem er með 3.000 tonna leyfi. Sú stöð er í uppbyggingu og verður tvöfölduð. Í matsskýrslu Matorku kemur fram að landeldisstöðin bjóði upp á allt að 75% endurnýtingu á vatni með möguleika á allt að 80% hreinsun á lífrænum úrgangi.
Matvælastofnun auglýsir frest til þess að skila inn skriflegum athugasemdum til 18. september í tilkynningu.
Í niðurstöðum álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum kemur fram að Skipulagsstofnun telur að við leyfisveitingar þurfi að setja skilyrði um vöktun grunnvatns og viðbrögð við áhrifum vatnstöku á grunnvatnsborð.