Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Heita vatnið streymir á ný í Hafnarfirði og Álftanesi

22.08.2020 - 05:19
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Vinnu við viðgerð á stórri hitaveitulögn í Hafnarfirði er lokið og heitu vatni hefur verið hleypt aftur á stofnlagnir þeirra hverfa í Hafnarfirði, Álftanesi og Garðbæ, sem verið höfðu heitavatnslaus um lengri og skemmri tíma. Byrjað var að hleypa heitu vatni á Álftanesið laust fyrir þrjú í nótt, að því er fram kemur á heimasíðu Veitna, og var vatninu síðan hleypt á annars staðar í áföngum. „Síðustu áhleypingu“ lauk klukkan 6.30, samkvæmt vef Veitna, og ættu allir að vera komnir með heitt vatn.

Bilun kom upp í stórri aðveituæð í Hafnarfirði síðdegis í gær og var þá lokað fyrir heitt vatn í nokkrum hverfum svo vinna mætti að viðgerð. Um ellefu leytið í gærkvöld kom upp leki í stórri lögn í Ásahverfi í Garðabæ, sem rakinn er til bilunarinnar í Hafnarfirði. Lekinn var töluvert mikill og sjóðandi vatn flæddi frá veitukerfinu og upp úr jörðinni. Þurfti þá að kalla slökkviliðið til aðstoðar og taka vatnið af Setbergshverfi í Hafnarfirði á meðan unnið var að viðgerð.

Fréttin var uppfærð kl. 06.35, eftir að Veitur tilkynntu að áhleypingu væri lokið og allir komnir með heitt vatn á ný. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV