Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Djúp hola uppgötvaðist í þjóðveginum norðan Djúpavogs

22.08.2020 - 09:43
Mynd með færslu
 Mynd: Eiður Ragnarsson
Djúp hola uppgötvaðist í þjóðveginum í gær eftir að vegfarandi tilkynnti lögreglu um ójöfnu í veginum rétt innan við Djúpavog, norðan við bæinn. Eiður Ragnarsson, ásamt samstarfsmönnum, fékk beiðni frá Vegagerðinni um að athuga ójöfnuna.

Þegar grafan hjó í veginn reyndist ójafnan vera gríðarstór hola. Eiður sagði í samtali við fréttastofu að holan sé minnst tveir og hálfur metri á dýpt.

Mildi þykir að holan uppgötvaðist svona og olli hvorki tjóni né slysum. „Í holuna fóru um tólf rúmmetrar af möl, sem er dágóður slatti,“ sagði Eiður. Hann segir gamalt ræsi hafa farið að gefa sig og holan því myndast.

Mynd með færslu
Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV