Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Deilt um lausn á straumi flóttamanna yfir Ermarsund

22.08.2020 - 07:56
epa08612526 A Border Force vessel brings in migrants found off the coast of Dover in Dover, Kent, Britain, 19 August 2020. Britain and France are continuing ongoing talks to try to resolve the migrant crisis in the English Channel. Migrants from Syria and other countries are continuing to arrive along the coast of the UK in their quest for asylum.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Straumur flóttamanna yfir Ermarsundið frá Frakklandi til Englands hefur vaxið mjög í sumar. Hátt í þúsund manns hafa farið þessa leið það sem af er þessum mánuði. Breskir stjórnmálamenn kenna glæpagengjum sem smygla flóttafólki um stöðuna og vilja senda þessa flóttamenn til baka. Hjálparsamtök segja vandann kerfislægan og hvetja Breta til að veita þessu fólki vernd.

Árið  2015 tók flóttamannavandinn tók á sig grafalvarlega mynd. Flóttamenn frá Miðausturlöndum og Norður-Afríku freistuðu þess að komast yfir Miðjarðarhafið, yfirleitt til Ítalíu eða Grikklands, í von um að fá hæli þar eða annars staðar í Evrópu og öðlast betra líf. Úr varð ein stærsta flóttamannakreppa síðari ára, sem kostaði fjölmörg mannslíf.

En þrátt fyrir hætturnar sem fylgja því að leggja á flótta frá heimkynnum sínum virðist ekki hafa dregið úr vilja fólks til að flýja örbirgð heima fyrir. Og ef því mistekst í einu landi, reynir það næsta land. Þeir sem hafa komist, oft við illan leik, yfir Miðjarðarhaf eru margir hverjir tilbúnir til að leggja á sig aðra bátsferð - yfir Ermarsund. Og flóttamönnum sem kjósa að reyna þá leið hefur farið ört fjölgandi undanfarnar vikur, þó að sá fjöldi sé ekkert í líkingu við það sem gerðist í Miðjarðarhafinu.

Bátar í stað vörubíla

Það er ekki nýtt af nálinni að flóttamenn reyni að komast yfir Ermarsund. Yfirleitt hafa menn þá farið með vörubílum, ýmist í gegnum Ermarsundsgöngin eða með ferju - og þá í felum fyrir yfirvöldum. Það hefur reyndar stundum haft skelfilegar afleiðingar - til að mynda fundust 39 víetnamskir flóttamenn látnir í kæligeymslu á vörubíl í fyrra. 

Síðasta árið, og einkum það sem af er ágústmánuði, hefur hins vegar verið óvenju mikið um að flóttamenn reyni að fara yfir á misilla búnum og oft yfirfullum bátum. Frá byrjun síðasta árs fóru um fimm þúsund og fimm hundruð flóttamenn yfir Ermarsund á litlum bátum og annar eins fjöldi reyndi að komast yfir en tókst ekki. Það hefur verið sérstaklega mikið um þetta það sem af er ágústmánuði og sjötta ágúst var sett nýtt met þegar 235 flóttamenn fóru þessa leið á einum degi. Þar sem erfitt er að sækja um hæli í ákveðnum löndum nema með því að komast þangað eru menn tilbúnir að leggja ýmislegt á sig til þess.

Fréttamaður BBC rakst á nokkra á þessari leið fyrr í mánuðinum. Þetta voru sýrlenskir flóttamenn, líklega um tuttugu talsins, á litlum og troðfullum gúmmíbát. Meirihlutinn voru karlmenn en þó voru konur meðal farþega. Þau báru sig vel og var áfangastaðurinn hafnarborgin Dover, hinum megin við Ermarsundið.

Í þessari bylgju er óvenju mikið af fylgdarlausum börnum. Og þau eru sett í hendur samtaka sem heita Kent Refugee Assistance Network. Þar til nýlega fengu þau öll þessi börn til sín en vegna þessa mikla straums núna hefur orðið hlé á því, hvað sem síðar verður.

Bridget Chapman, talsmaður Kent Refugee Assistance Network.
 Mynd: KRAN
Bridget Chapman.

Bridget útskýrir að fylgdarlausum börnum hafi fjölgað mikið í þessum flóttamannastraumi. Hlutverk samtakanna er að styðja börnin á sama hátt og fjölskyldan myndi gera þó að ekkert geti komið í staðinn fyrir hana. Til dæmis kenna þeim að elda, skipuleggja fjárhaginn og eiga samskipti við fólk. 

Bridget segir að bátsferðin reyni mikið á þá sem hana fara, sérstaklega börnin, sem almennt eru afar skelkuð. „Ferð á svona gúmmíbát með heldur slakri eða jafnvel engri vél getur tekið 10-12 klukkustundir. Fólk verður blautt og kalt, og ofkælist þrátt fyrir að nú sé sumar. Fólk var hrætt og hélt að það myndi deyja. En allir eru þó fegnir að hafa komist heilu og höldnu í land.“

Guðríður Lára Þrastardóttir, lögfræðingur sem starfað hefur mikið í málefnum  flóttamanna, segir að þetta sé ein birtingarmyndin af því hvað hið sameiginlega evrópsla hælisleitendakerfi virki illa. Guðríður Lára starfar nú hjá Rauða krossi Íslands sem talsmaður hælisleitenda en tekið skal fram að skoðanirnar sem hún viðhefur hér eru ekki endilega skoðanir Rauða krossins.

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Guðríður Lára Þrastardóttir.

„Flóttafólk í Evrópu hefur alls ekki sömu tækifæri eftir því hvar það leggur fram umsóknina sína. Það skýrir af hverju þetta ferðalag er á fólki fram og til baka um Evrópu. Þetta er nákvæmlega sama sviðsmyndin og þegar fólk var að koma yfir Miðjarðarhafið - yfirfullir bátar, lélegir gúmmíbátar sem fólk fer í og margir fara í annað sinn. Bretar hafa aðeins hærra veitingarhlutfall en meðaltalið í Evrópu, þ.e. þeir veita fleirum vernd en í öðrum Evrópuríkjum. En á hinn bóginn eru færri umsækjendur sem koma til Bretlands en til Þýskalands og Frakklands þannig að það er erfitt að átta sig nákvæmlega á því hvað er á seyði þarna,“ segir Guðríður Lára.

Samkvæmt tölunum eru hælisumsóknir þrefalt fleiri í Frakklandi en í Bretlandi, en þessi lönd eru álíka fjölmenn. Og Þýskaland fær enn fleiri umsóknir. Guðríður Lára segir að almennt sé hlutfall þeirra sem fá hæli lægra eftir því sem umsóknir eru fleiri. Það er til dæmis erfiðara að fá vernd í Danmörku og Noregi en á Íslandi, og erfiðara að fá vernd í Þýskalandi og Frakklandi en í Bretlandi. 

Á síðasta ári sóttu 49 þúsund manns um hæli í Bretlandi, en 677 þúsund manns fluttu til Bretlands til langframa. Það má því færa rök fyrir því að fjöldi þeirra sem sækja um sé nokkuð viðráðanlegur, enda fær meirihluti þeirra vernd sem sækir um hana.

epa08612534 A Royal Lifeboat vessel brings in migrants found off the coast of Dover in Dover, Kent, Britain, 19 August 2020. Britain and France are continuing ongoing talks to try to resolve the migrant crisis in the English Channel. Migrants from Syria and other countries are continuing to arrive along the coast of the UK in their quest for asylum.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Þeir sem fara þessa leið eru frá nokkuð mörgum löndum.
- Jemen þar sem borgarastríð hefur geisað lengi með miklum hörmungum fyrir almenna borgara.
- Erítrea þar sem efnahagurinn hefur verið bágur, einræðisstjórn ríkir og íþyngjandi herskylda er á íbúm.
- Tsjad, þar sem spenna milli múslima í norðri og kristinna í suðri hefur leitt af sér mikið ofbeldi.
- Egyptaland þar sem stjórnvöld sýna sífellt meiri einræðistilburði og hryðjuverkaárásum hefur fjölgað.
- Súdan þar sem stríðsátök hafa geisað árum saman.
- Írak þar sem átök trúarhópa hafa gert stjórnvöldum erfitt fyrir að byggja upp efnahaginn þrátt fyrir miklar auðlindir.
- Sýrland þar sem langvinn stríðsátök hafa verið eins og mikið verið fjallað í fjölmiðlum víða um heim.

Þessi listi er ekki tæmandi.

En af hverju eru þeir farnir að sigla yfir Ermarsund í auknum mæli? Bridget segir að hluti ástæðunnar sé að eftirlit hafi verið hert verulega í Calais. „Það voru settar upp girðingar sem gerðu flóttafólki erfiðara að komast í vörubíla. Það var líka minna um vörubíla meðan útgöngubann var í gildi vegna kórónuveirufaraldursins. Þá hefur veðrið verið gott undanfarið sem bæti skilyrðin fyrir slíkar siglingar. Að auki höfum við heyrt að þeir sem sjá um að smygla fólki yfir til Englands telji flóttafólki trú um að betra sé að fara fyrr en seinna þar sem útganga Breta út Evrópusambandinu geri hælisumsókn erfiðari - nokkuð sem ég held að sé ekki satt. Þá eru yfirvöld í Norður-Frakklandi orðin nokkuð uggandi um flóttamannastrauminn. Lögreglan hefur beitt táragasi og gert upptækan búnað flóttafólks, á borð við mat, vatn, báta og tjöld, sem auki ekki á löngun fólksins að halda kyrru fyrir í Frakklandi. Allt þetta hefur lagt sitt af mörkum,“ segir Bridget.

Stjórnmálamenn vilja halda fólkinu frá

Breskir stjórnmálamenn hafa gagnrýnt Frakka fyrir að stöðva ekki þennan straum, meðal annars Natalie Elphicle þingmaður Dover. Hún segir að það skipti öllu máli fyrir öryggi flóttamannanna að stöðva þennan straum. Til þess séu þrjár leiðir. Í fyrsta lagi þurfi Frakkar að koma í veg fyrir að bátarnir fari frá ströndum landsins, í öðru lagi að ef bátar sjást á Ermarsundi verði þeir sendir til Frakkland og í þriðja lagi ef bátarnir komast alla leið á Englandsstrendur eigi að senda þá til baka umsvifalaust. Hennar sjónarmið er að Frakkar eigi að bera ábyrgð á því fólki sem er á franskri grund.

epa08281898 British Prime Minister Boris Johnson speaks during a news conference inside number 10 Downing Street in London, Britain, 09 March 2020. Johnson's spokesman said both the government and Bank of England are ready to take action to bolster the economy if needed.  EPA-EFE/JASON ALDEN / POOL
Búist er við að Boris Johnson boði stefnubreytingu í baráttunni við kórónaveiruna. Mynd: EPA-EFE - Bloomberg

Boris Johnson forsætisráðherra hefur talað á svipaðan hátt en nefndi þó sérstaklega að uppræta þyrfti glæpagengi sem smygluðu fólki til landsins. „Þarna eru grimm glæpagengi að hætta lífi þessa fólks með því að senda það yfir oft úfið sund á mögulega óhaffærum bárum. Við viljum hindra þetta í samvinnu við franska vini okkar,“  segir Johnson.

Hann segir að það þurfi líka að skoða lagaumhverfið - það sé mjög erfitt að senda fólk til baka þegar það er einu sinni komið þó að það hafi augljóslega komið ólöglega inn í landið.

Þessi orð benda til þess að það eigi hreinlega að koma í veg fyrir að fólkið komi til Englands. Bridget Chapman gagnrýnir sérstaklega orð Nigels Farage, fyrrverandi þingmanns, sem stýrði Brexit-flokknum, en hann talaði um þennan flóttamannastraum sem innrás. Slíkt hjálpi ekki.

„Það eru dæmi um að ráðist hafi verið á flóttamenn þegar þeir koma að Englandsströndum á gúmmíbátum sínum og stjórnmálamenn núa saman höndunum og segja hvað þetta sé hræðilegt. Svona verður þetta ef stjórnmálamenn halda áfram þessari neikvæðu orðræðu. Þetta veldur vonbrigðum, þetta er hættulegt og svona umræða verður að hætta,“ segir Bridget.

Menn eru ekki sammála um bestu lausnina. Innanríkismálanefnd þingsins hefur hafið rannsókn á því hversu vel stjórnvöld í Bretlandi og Frakklandi vinna saman. Þá hefur verið gagnrýnt að of lítið sé gert til að sækja þá til saka sem smygla fólki milli ríkja. Og svo segja þeir sem styðja flóttamennina að ef auðveldara væri að sækja um hæli í Bretlandi myndi þeim fækka sem kæmu ólöglega inn í landið.

Sextán ára flóttamaður drukknaði

Eftir að öll þessi ummæli féllu fannst 16 ára súdanskur flóttamaður látinn á ströndinni við Calais í Frakklandi. Hann drukknaði þegar hann reyndi að komast yfir Ermarsund. Félagi hans fannst á lífi en hafði ofkælst. Í ljós koma að þeir höfðu verið á vélarlausum gúmbát og notað skóflur sem árar. Önnur skóflann takk óvart gat á bátinn. Félagi hins látna sagði að hann hefði verið ósyndur.

Priti Patel innanríkisráðherra Bretlands sagði á Twitter að þetta væri grimmileg áminning um starfsemi glæpagengja, og stökk því á vagn þeirra sem telja upprætingu þeirra lausnina á vandanum. Ekkert slíkt hefur verið sannað, og Bridget Chapman sagði í viðtali við BBC að óvíst væri að slík gengi hefðu nokkuð komið nálægt þessu.

Clare Moseley, stofnandi góðgerðarsamtakanna Cars4Calais, tók undir þetta í viðtali við Sky. „Það gleymist í þessari umræðu að margt af þessu flóttafólki hefur ekki efni á að borga fólki fyrir að smygla sér á áfangastað. Það á mjög líklega við um strák eins og þennan. Það er líklegt að þeir hafi séð annað fólk halda af stað og það hafi fengið þá til að taka svona áhættu. Það er fólk á borð við súdanska drenginn sem gerir það,“ segir Moseley.

Möguleikar misjafnir á góðu lífi

Ef flóttamennirnir komast alla leið til Bretlands telur Bridget möguleika þeirra góða til að spjara sig í landinu. „Ég hef aldrei séð ungt fólk leggja jafn mikið í menntun sína og þetta fólk þannig að það á bjarta framtíð fyrir sér í Bretlandi. Ég hef séð mörg þeirra jafnvel fara í háskóla í Bretlandi sem er mikið afrek þegar þau hafi ekki lært ensku heima fyrir.“

En þetta er þó ekki alveg svona einfalt. Guðríður Lára bendir á að ef hælisleitandi er svo heppinn að fá vernd sé hann samt bundinn í viðkomandi landi. „Segjum sem svo að flóttamaður sé skikkaður til að sækja um hæli í Þýskalandi og sé svo heppinn að fá vernd þar. Síðan blasir við atvinnuleysi og þá getur viðkomandi ekki ferðast til annarra landa eins og þýskir ríkisborgarar eða aðrir í Evrópu til að sækja vinnu annars staðar. Hann þarf að búa í Þýskalandi og sækja um vinnu þar. Þannig að frjáls för verkafólks gildir ekki um flóttafólk í Evrópu.“

Guðríður Lára segir að ef breyting yrði á þessu myndi það ekki aðeins leysa vanda flóttafólksins heldur margra ríkja. Um þetta er hins vegar ekki pólitísk samstaða í Evrópu og á því strandar.

Þá er líka óvissa um hvað breytist við brotthvarf Breta úr Evrópusambandinu. „Í janúar verða þeir ekki lengur hluti af Dyflinnarsamstarfinu. Þá er óljóst hvað gerist og hvort þeir eigi rétt á að senda þetta fólk aftur til baka. Það er stór pólitísk spurning hvernig því verður háttað.“

epaselect epa08612521 The white cliffs of Dover in Dover, Kent, Britain, 19 August 2020. Britain and France are continuing ongoing talks to try to resolve the migrant crisis in the English Channel. Migrants from Syria and other countries are continuing to arrive along the coast of the UK in their quest for asylum.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Frá Dover.

En hvað á að gera til að koma í veg fyrir að flóttamenn leggi upp í svona háskaför eins og sigling á lélegum gúmmíbát yfir Ermarsund augljóslega er? Eins og fyrr var getið vilja bresk stjórnvöld að Frakkar taki á því sín megin eða að öllum flóttamönnum verði umsvifalaust vísað til baka. Þau hafa líka sent sjóherinn í eftirlit sem hefur þá það hlutverk að senda fólkið á svona bátum aftur til Frakklands - nokkuð sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur gagnrýnt þar sem fjöldinn sem komi yfir á þennan hátt sé vel viðráðanlegur fyrir Breta - auk þess sem viðvera skipanna geti ein og sér verið hættuleg fyrir flóttamennina.

Bridget telur hins vegar að lausnin sé einföld - að koma á kerfi fyrir hælisleitendaumsóknir til Bretlands. „Það er ekkert því til fyrirstöðu að bresk stjórnvöld geti haft skrifstofu í Frakklandi og gefið fólki miða í ferju yfir til Bretlands. Þetta myndi stöðva smygl á fólki á einni nóttu. Landamærin væru öruggari og við vissum hverjir væru að koma og hvenær. Flestir þeirra sem koma eru með sterkan grunn til að fá hæli í Bretlandi og því er líklegt að umsókn verði samþykkt. Það þarf að finna leið til að koma í veg fyrir að fólkið fari í þessa háskaför og því mælum við sterklega með lögformlegri leið til að sækja um vernd.“

En það þarf að leysa þessi mál víðar en í Bretlandi. Guðríður Lára bendir á að það sé miserfitt að fá hæli eftir því í hvaða Evrópulandi umsókn er lögð inn. Stóra lausnin sé því að breyta samevrópska hælisleitendakerfinu. „Það blasir við að þetta kerfi gengur ekki upp, hvorki fyrir flóttafólk né stjórnvöld. Það er verið að senda fólk fram og til baka í Evrópu, þetta er dýrt, mikil lögfræðivinna í kringum þetta og þetta er afskaplega óskilvirkt kerfi og deildar meiningar um hvort það sé verið að vinna réttilega eftir þessu. Það er því ljóst að það þarf að umbylta þessu kerfi. Það er verið að ræða um Dyflingarreglugerð fjögur en það er ekki samstaða um hvernig hún á að vera. Í mínum huga er vandinn ekki það stór að hann sé óleysanlegur. Fjöldi flóttafólks sem kemur til Evrópu er mjög lítill hluti af íbúafjölda Evrópu og það ætti ekki að vera stórkostlegt vandamál fyrir svona stóra og ríka álfu að taka við fólki á sómasamlegan hátt. Það er hins vegar ekki að takast og það er náttúrulega pólitíkin.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV