Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Barnaskóla Hjallastefnunnar lokað vegna smits

22.08.2020 - 13:36
Mynd með færslu
 Mynd: Hjallastefnan
„Þetta er alveg ömurlegt,“ segir Þórdís Jóna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar, í samtali við fréttastofu. Allir kennarar Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík hafa verið sendir í tveggja vikna sóttkví eftir að kennari greindist með COVID-19. Skólanum hefur verið lokað og hann verður ekki opnaður fyrr en eftir tvær vikur þegar húsnæðið hefur verið þrifið og sótthreinsað.

Einn kennari greindist í gær eftir að hafa verið á starfsdegi með kennurum skólans á fimmtudag. Kennarinn mætti ekki á skólasetningu í gær og hefur því hvorki hitt börn né foreldra. Því segir Þórdís ekki ástæðu til að senda börn í sóttkví. Á starfsdeginum hafi kennararnir gætt þess að hafa tveggja metra bil á milli sín. 

Þórdís segist harma mjög að smitið stöðvi skólastarfið og segist nú leita leiða til að halda starfinu áfram með einhverjum hætti. Hún veltir því upp hvort tilefni sé til að koma aftur á hólfaskiptingu í skólum til þess að koma í veg fyrir að eitt smit setji starfið í heilum skóla á annan endann. Þórdís segist vona að frístundastarf skólans geti haldið áfram, enda sjá kennarar skólans ekki um það.

Þá nefnir Þórdís að lokunin hafi mikil áhrif, ekki aðeins á nemendur í skólanum heldur einnig á foreldra og störf þeirra. Til dæmis starfi foreldrar nokkurra barna í skólanum á leikskólum Hjallastefnunnar og nú þurfi að skoða hvernig hægt verði að koma í veg fyrir að leikskólastarfið raskist líka. 

Að lokum segist hún ekki vita til þess að aðrir kennarar hafi fundið fyrir einkennum. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV