Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Víðir: „Samfélagið allt fær sömu þjónustu“

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum. - Mynd: RÚV / RÚV
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir það sama ganga yfir ríkisstjórnina og alla aðra í sýnatöku. Ráðherrarnir fái úthlutaðan tíma í skimun og mæti þangað sem sýnataka fer fram í dag.

Allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar nema tveir, Svandís Svavarsdóttir og Ásmundur Einar Daðason, fara í tvær sýnatökur og þurfa að viðhafa smitgát þeirra á milli eftir að hafa snætt kvöldverð á Hótel Rangá á þriðjudag. Nokkrir sem höfðu dvalið á hótelinu greindust smitaðir í gær. Fyrri skimun ráðherranna er í dag og sú seinni á mánudag.  

Víðir var í viðtali í hádegisfréttum:

Hvenær var tekin ákvörðun um að skima ríkisstjórnina og hvernig var því komið til skila þar sem þau voru á fundi í morgun? 

Hún var tekin í morgun um það leyti sem ríkisstjórnarfundur var að hefjast og þetta var gert í gegnum ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins.  

Hvernig verður þessari sýnatöku háttað? Fá þau sérstakan tíma á heilsugæslustöð? Fara þau í sýnatöku úr bílum? Mega þau fara á ráðherrabílum? Verður eitthvað sérstaklega staðið að þessari sýnatöku? 

Nei, þetta er bara nákvæmlega sama fyrirkomulag og allir aðrir sem fara í svona skimun. Þau eru skráð í kerfið og fá bara sendan tíma eins og hver annar og mæta þar sem er verið að skima hverju sinni. Það er bara misjafnt hvernig þetta hefur verið síðustu vikurnar, hvar sýni eru tekin og hvernig. Þannig það er bara ekkert öðruvísi hjá þeim en hverjum öðrum.  

Lá fyrir einhver aðgerðaáætlun fyrir um ríkisstjórnina ef þessi staða kæmi upp? 

Við höfum farið í gegnum þetta með ríkisstjórninni hvernig svona atburðir eru afgreiddir. Þannig þeim var vel kunnugt um það hvernig svona væri og unnið eftir því verklagi sem við höfum í þessu. Það var okkar sýn mjög fljótlega í þessu verkefni að við værum að tækla hlutina hjá öllum með sama hætti. Samfélagið allt fær sömu þjónustu.  

Nú bárust fregnir af þessu smiti í gær. Hefði ríkisstjórnin átt að vera að hittast á fundi í morgun eða hefði kannski átt að vera búið að grípa til ráðstafana? 

Ef við hefðum talið að ríkisstjórnin hefði verið klárlega útsett þá hefðum við gripið til annarra aðgerða. Það starfsfólk sem var að vinna í kringum ríkisstjórnina á hótelinu var skimað í gær og það komu neikvæðar niðurstöður úr þeim. Þau lenda þannig í öðrum hring sem er þar sem við erum að skima fólk en setjum það ekki í sóttkví. Ef ríkisstjórnin hefði verið örugglega útsett þá hefði hún farið í sóttkví strax í gær.  

En ef það er ekki talið að hún hafi verið útsett fyrir smiti, hvers vegna er þá talin þörf á því að hún fari í þessa skimun og viðhafi þessa smitgát? 

Það er bara sama og allir. Ætli þetta sé ekki yfir hundrað manns sem tengjast þessu máli. Þetta er það sama of við höfum gert síðan þessi seinni bylgja hófst. Þá höfum við í staðinn fyrir að vera með almenna skimun í samfélaginu verið með svona target-aða skimun þar sem við höfum verið að taka þessa sem tengjast þeim sem eru í sóttkví. Og verið minni líkur að hafi verið beint útsettir. Við höfum gert þetta mjög víða um land síðustu vikurnar.