Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Tíðindin um skimun bárust inn á fund ríkisstjórnarinnar

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Ríkisstjórnin sat á fundi þegar henni bárust tíðindi um að allir ráðherrar nema tveir þyrftu að fara í tvöfalda skimun og varúðarsóttkví. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að ríkisstjórnin hafi ákveðið að fara ekki í neinn „bönker“ þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn og það hafi ekki verið mistök að snæða saman kvöldverð á Hótel Rangá . Svona geti alltaf komið upp enda fari veiran ekki í manngreinaálit.

Meira en helmingur þeirra smita sem greindust innanlands í gær má rekja til Hótel Rangá.  Starfsmaður hótelsins og nokkrir gestir greindust jákvæðir og var hótelinu lokað seint í gærkvöld.

Ríkisstjórnin  snæddi saman kvöldverð á hótelinu á þriðjudag eftir ríkisstjórnarfund á Suðurlandi.  Í fyrstu var talið að smitið á Hótel Rangá hefði ekki nein teljandi áhrif á ríkisstjórnina en það breyttist snögglega í morgun.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að fyrst þá hafi verið vitað að nokkur smit hefðu greinst á Hótel Rangá. Einhverjir hafi þurft að fara í sóttkví, aðrir verið sendir í einfalda skimun og síðan hafi verið ákveðið að senda alla ríkisstjórnina nema tvo ráðherra í skimun í dag, vera í varúðarsóttkví um helgina og mæta í aðra sýnatöku á mánudag. Ráðherrarnir tveir sem þurfa ekki að fara í sýnatöku eru þau Ásmundur Einar Daðason og Svandís Svavarsdóttir.

Katrín segir að þetta hafi borið brátt að og tíðindin hafi verið að berast inn á fundinn jafnóðum. Hún segir það ekki hafa verið mistök að snæða kvöldverð á Hótel Rangá. „Við gættum vel að öllum sóttvarnarráðstöfunum, bæði þarna og á fundarstað. Við erum öll að vinna að því að halda samfélaginu gangandi og ríkisstjórnin hefur ákveðið að fara ekki ofan í neinn „bönker. Þetta er bara svona, þetta getur alltaf komið upp og veiran fer ekki í manngreinaálit.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV