Mynd: EPA-EFE - EPA

Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.
Sendinefnd Samtaka Vestur-Afríku væntanleg til Malí
21.08.2020 - 15:03
Erlent · Afríka · Assimi Goita · Boubacar Keita · Boubou Cisse · bylting · Malí · Stjórnmál · Vestur-Afríka
Fulltrúar Samtaka Vestur-Afríkuríkja eru væntanlegir til Malí á morgun laugardag. Tilgangurinn er sagður vera að koma á stjórnskipulegri reglu í landinu.
Talsmaður herforingjastjórnarinnar segist fagna sendinefndinni, áríðandi sé að eiga samtal við bræður sína.
Ibrahim Boubacar Keita forseta Malí var steypt af stóli í valdaráni hersins á þriðjudag. Assimi Goita ofursti er leiðtogi „Landsnefndar um frelsun þjóðarinnar“ sem hefur forsetann, Boubou Cisse forsætisráðherra og fleiri háttsetta embættismenn í haldi.
Goodluck Jonathan fyrrverandi forseti Nígeríu leiðir sendinefndina. Samtök Vestur-Afríkuríkja krefjast þess að Keita taki aftur við forsetaembættinu. Auk þess árétta þau ábyrgð herforingjastjórnarinnar á velferð þeirra sem eru haldi hennar.
Herforingjarnir segjast þegar hafa látið tvo af sautján föngum sínum lausa.