Netflix gagnrýnt fyrir að kyngera ungar stúlkur

Mynd með færslu
 Mynd: Netflix

Netflix gagnrýnt fyrir að kyngera ungar stúlkur

21.08.2020 - 14:23
Netflix hefur sent frá sér afsökunarbeiðni í kjölfarið á gagnrýni á auglýsingu fyrir kvikmyndina Cuties sem væntanleg er á streymisveituna 9. september. Gagnrýnendum þótti mynd og texti sem fylgdu auglýsingunni vera óviðeigandi og kyngera ungar stúlkur.

Kvikmyndin er frönsk og var frumsýnd á Sundance kvikmyndahátíðinni í janúar. Hún fjallar um Amy, 11 ára, sem er föst á milli þess að fylgja þeim hefðbundnu gildum sem hún hefur alist upp við sem múslimi og þess að tilheyra internet-menningu sem hefur kyngert ungar stúlkur þegar hún ákveður að ganga til liðs við danshóp sem kallar sig „The Cuties.“

Undirskriftasöfnun var hafin fyrir því að fjarlægja kvikmyndina og 154 þúsund undirskriftir hafa safnast þegar þessi frétt er skrifuð. Þar er meðal annars skrifað að myndin sé viðbjóðsleg, kyngeri ellefu ára stelpu og hafi neikvæð áhrif á önnur börn. Engin þörf sé fyrir svona efni á veitunni, það geti beinlínis verið hættulegt. 

Í upphaflegri lýsingu á myndinni segir: „Amy, ellefu ára, heillast af „twerk danshópi.“ Í þeirri von að hún geti orðið hluti af hópnum fer hún að leita kvenleika síns og ögra hefðum fjölskyldu sinnar.“ Þessum texta hefur nú verið breytt og í staðinn er lýsing myndarinnar eftirfarandi: „Hin ellefu ára Amy gerir uppreisn gegn íhaldssömum hefðum fjölskyldu sinnar þegar hún heillast af frjálslegum danshópi.“

Myndin sem var notuð til að auglýsa myndina hefur sömuleiðis verið fjarlægð og önnur mynd sett í staðinn. Í afsökunarbeiðni sem birtist á veftímaritinu Deadline segja fulltrúar Netflix að gamla myndin hafi verið óviðeigandi og harma að hún hafi verið notuð. Hún hafi hvorki verið í lagi né sýnt það sem franska myndin stendur fyrir. 

Höfundur og leikstjóri myndarinnar, Maïmouna Doucouré, sagði í samtali við CineEuropa að myndin væri að miklu leyti byggð á hennar eigin reynslu. Myndin sé óvægin lýsing á því að vera ellefu ára stelpa sem er hent inn í heim sem þröngvar upp á hana skipunum. Henni hafi þótt mikilvægt að dæma ekki stelpurnar í myndinni heldur sýna frekar fram á skilning, hlusta á þær, gefa þeim rödd og taka inn í myndina það flækjustig sem þær þurfa að lifa við.