Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Nemendur vilja betri lausnir en fjarnám

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd
Heppilegra hefði verið að bíða með hækkun skólagjalda fyrir haustönnina, segir Ástríður Jónsdóttir, myndlistarnemi á lokaári, sem stóð ásamt fleirum að undirskriftasöfnun meðal nema við Listaháskóla Íslands. Þess var meðal annars krafist að skólagjöld yrðu lækkuð vegna skertrar þjónustu við nemendur sem samkomutakmarkanir höfðu í för með sér.

Ástríður segir að 3% vísitölubundin hækkun á skólagjöldum hafi komið illa við suma nemendur, meðal annars vegna synjunar á beiðni nema, sem ekki gátu lokið síðustu önn í fjarnámi, um afslátt á skólagjöldum.

Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor LHÍ, hefur sagt við fréttastofu að útilokað sé að endurgreiða skólagjöld vegna skerðinga sem kunni að verða af völdum COVID-19 nema fjármagn berist skólanum á móti.

Skólinn hafi gengið mjög langt „til að mæta þeim sértæku þörfum sem listnám krefst,” sagði Fríða Björk. Skólinn kom til móts við nemendur í sumar með því að veita frían aðgang að skólahúsnæðinu. Ástríður segir að einhverjir nemendur sem áttu eftir að halda útskriftarsýningu hafi ekki fengið aðgang að skólanum. „Það virðist ekki hafa átt við alla,“ segir hún. Rúmlega 200 hafa ritað nafn sitt í undirskriftasöfnun meðal nemenda sem hófst 11. ágúst.

Vilja fá betri lausnir en fjarnám

Nemendur í tónlistardeild fengu í gær upplýsingar um að á meðan núverandi sóttvarnarreglur gilda fái þriðja árs nemar ekki að koma inn í skólabyggingarnar vegna fjöldatakmarkana. „Nemendur sem töldu sig ekki geta stundað sitt nám í fjarkennslu fá þær fréttir að þeir megi ekki koma inn í bygginguna,“ segir Ástríður. Þeir mega búast við nýjum upplýsingum 27. ágúst. Aðrir grunnnemendur fá staðkennslu í einhverri mynd. Hún segir að tónlistarnemar sem reiði sig á að æfa með öðrum séu ævareiðir yfir því það að stefni í sömu stöðuna og í vor þegar nemendur voru sendir heim. Skólinn stefnir að því að staðnám tónlistarnema á þriðja ári hefjist sem allra fyrst samkvæmt tilkynningu.

„Mörg okkar geta ekki hugsað sér að borga skólagjöldin meðan við vitum ekki betur hvað bíður,“ segir Ástríður, sem segir nemendur einnig íhuga að hætta við önnina.  Þetta fyrirkomulag dragi úr jafnrétti til náms. Listnám þarfnist aðstöðu sem ekki sé á færi allra að útvega sér sjálfir.

„Við erum alls ekki að fara fram á að sveigt verði hjá sóttvarnarreglum. Við viljum fá skólann í lið með okkur til að finna betri lausnir en fjarnám í þeim greinum sem ekki eru bóklegar.“

Ein önn í grunnnámi við Listaháskóla Íslands kostar 288.167 krónur. Til samanburðar kostar önnin í grunnnámi við Háskólann í Reykjavík 257.000 krónur fyrir fullt nám en gjaldið er einingatengt. Á vefsíðu hans kemur fram að ekki komi til greina að veita nemendum afslátt af skólagjöldum fyrir liðna vorönn. Þá kostar fyrsta önnin í diplómanámi Kvikmyndaskóla Íslands 700.000 krónur en hinar þrjár 600.000. Í Háskólanum á Bifröst er skólagjaldið einnig einingatengt. Þar er gjaldið fyrir 9-16 einingar á önn 176.000 krónur.